Gestir frá Sikiley í heimsókn

Veðrið hefur ekki leikið við gestina sem þessa dagana heimsækja Kvennaskólann, en hér er staddur hópur nemenda frá Sikiley ásamt kennurum. Hópurinn er frá Liceo Classico G. Garibaldi í Palermó og telur 23 nemendur. Þau taka þátt í samstarfsverkefni sem er valáfangi í Kvennaskólanum og gista Sikileyingarnir á heimilum nemenda og kynnast þannig daglegu lífi hér á landi. Heimsóknin er styrkt af Erasmusplus menntaáætluninni og fjallar verkefnið um náttúru og menningu á eldfjallaeyju. Markmiðið er að kanna hvort mikil samsvörun sé milli þessara tveggja eyja. Nemendurnir safna gögnum og vinna hópverkefni tengd þemanu auk þess sem þau heimsækja Alþingi, Háskóla Íslands og Almannavarnir til að fræðast um viðbrögð við náttúruvá. Meðan á dvölinni stendur munu Sikileyingarnir fara í skoðunarferðir um Suðurland og allur hópurinn fer í Þórsmörk. Samskipti sem þessi eru vel til þess fallin að auka skilning á menningu og staðháttum í Evrópu.

Mynd:
Hópurinn fyrir framan dómkirkjuna í Palermó í vor þegar íslenski hópurinn heimsótti Sikiley.