Dansbylting í Hörpu!

Þann 19. febrúar 2016 var dansbylting gegn kynbundnu ofbeldi í Hörpu.
Byltingin er haldin árlega um allan heim og með samtakamætti lætur heimsbyggðin til sín taka. Nemendur og kennarar Kvennaskólans voru engin undantekning. 
Milljarður rís er einn stærsti viðburður í heimi og er haldinn í samstarfi UN Women og Sónar Reykjavík. Þetta er fjórða árið í röð sem Milljarður rís er haldinn og að þessu sinni var viðburðurinn tileinkaður konum og börnum á flótta. 
Margir nemendur, kennarar og starfsfólk Kvennaskólans mættu og dönsuðu af krafti. Sumir kennarar nýttu tækifærið, færðu kennsluna út fyrir skólastofuna og gengu með nemendum sínum í Hörpu á meðan aðrir nemendur nýttu frítíma sinn og mættu með vinum og vandamönnum. DJ Margeir, ásamt öðrum góðum gestum, sá til þess að dansgólfin fylltust.
Konur á flótta þurfa vernd og öryggi
Aldrei hafa fleiri konur verið á flótta frá því við lok seinni heimstyrjaldar en um 500 þúsund konur og börn flýja nú heimalönd sín og leggja leið sína til Evrópu. Talið er að 12% kvenna sem ferðast yfir Miðjarðarhafið séu barnshafandi og gríðarleg aukning hefur orðið á mæðradauða síðan flóttamannakrísan hófst. Konur og stúlkur á flótta eiga stöðugt á hættu að vera beittar ofbeldi, kynferðislegri misnotkun eða mansali.