Eva Dröfn á Evrópuþingi

Eva Dröfn H. Guðmundsdóttir í 3.H fór á Evrópuþing unga fólksins og segir hér frá:

„Dagana 6.-11. september var ég stödd í Sviss í borginni Genf á Evrópuþingi unga fólksins (European Youth Parliament). Evrópuþing unga fólksins fer fram eftir sömu reglum og Evrópuþingið sjálft fer fram og var öll aðstaða og skipulag rosalega faglegt og flott, enda hefur EYP starfað í 20 ár.

Meginmarkmiðið sem þingið hafði til umfjöllunar var „Creating peace in a globalized world.“. Undir þessu meginmarkmiði voru svo tíu undirflokkar; málefni sem Evrópusambandið, eða Evrópa, á í vandræðum með eða þarf að kljást við. Lausn þessara málefna myndi svo stuðla að því að meginmarkmiðið náist – stuðla að friði í hnattrænum heimi.

Undirflokkarnir skiptust í málefni sem varða umhverfismál, jafnréttismál, alþjóðasamskipti, efnahagsmál, hervæðingu, útflutningsvörur, hryðjuverk, flóttafólk, loftlagsbreytingar, fátækt og afstöðu Evrópuþjóðanna til ýmsa heimsmála.

Ungmennunum sem sóttu þingið var skipt upp í hópa eða nefndir. Hver nefnd fékk eitt af undirmálefnunum tíu. Hver nefnd vann saman að því að birta lokaniðurstöðu sem var borið fyrir þingið, fyrir alla krakkana í hinum nefndunum, á svokölluðu allsherjarþingi eða „General Assembly“, sem var að öllu leyti eins og smættuð útgáfa af Evrópuþinginu.

Fyrsti dagurinn var helgaður hópefli. Það þekktist enginn fyrirfram innan  nefndanna og þar sem nefndirnar áttu fyrir höndum mikla og nána samvinnu var mikilvægt að nefndarmeðlimir kynntust ágætlega og væru lausir við feimni.  Það var mikilvægt því í grunninn er það samvinnan sem skilar bestu niðurstöðunni.

Næstu tveir dagar fóru í að kryfja hvert efni og vandamál, rökræða, hugsa og að lokum útfæra lokaúrlausn. Þetta þýddi að hver nefnd þurfti að leita sér upplýsinga varðandi sitt málefni og skoða það frá öllum mögulegum hliðum. Oft komu upp fletir á vandanum sem mann hefði ekki dottið til hugar en vinnuumhverfið skapaði aðstæður þar sem enginn flötur var of smár til að kanna. Síðustu tvo dagana var svo allsherjarþingið en þá fékk hver nefnd ákveðinn tíma til að flytja, verja og rökræða sitt mál. Að lokum flutnings hverrar nefndar var kosið um lokaniðurstöðuna og ef hún stóðst kosningar var henni vísað áfram til fulltrúa Evrópusambandsins.

Skipulagið þessa fimm daga var rosalega þétt og enginn frítími var gefinn. Alla morgna vorum við vakin klukkan 6:30 og við unnum langt fram eftir degi. Allir sem sóttu þingið voru á svipuðum aldri en komu frá mismunandi stöðum í Belgíu og Sviss og svo vorum við þrjár sem komum frá Íslandi.

Ég hef aldrei unnið jafn mikið á jafn stuttum tíma, en þrátt fyrir að hún hefði verið erfið var þessi reynsla algjörlega ómetanleg. Ég m.a. flutti ræðu fyrir framan um 140 manns, tók þátt í rökræðum um heimsmál og víkkaði sjóndeildarhringinn gífurlega.“