Fyrrum skiptinemi í heimsókn

Veturinn 2014-2015 var skiptinemi frá Mexíkó, Jeronimo Lavin Carrasco, í 1.H. Síðastliðinn föstudag kom Jero, eins og hann er kallaður, aftur til Íslands að heimsækja fjölskylduna sem hann bjó hjá. Hann kom líka í Kvennó og heimsótti bekkinn sinn og urðu miklir fagnaðarfundir. Jero var duglegur að læra íslensku meðan á skiptinemadvölinni stóð og talaði nánast bara íslensku við fyrrum bekkjarfélaga sína þegar hann hitti þá í vikunni. Jero var ánægður með skiptinemadvölina á Íslandi og veruna í Kvennó. Hann ákvað að velja land sem væri ólíkt Mexíkó og langaði þannig að víkka sjóndeildarhringinn. Hann segist ánægður með að hafa verið í bekkjarkerfi og telur að dvölin hafi gert hann sjálfstæðari og að mörgu leyti breytt lífi hans. Hann tók virkan þátt í skólastarfinu og félagslífinu og lék meðal annars hlutverk í leiksýningu Fúríu, leikfélags Kvennaskólans. Hann hugsar hlýlega til Íslands og segir að hér líði honum eins og heima hjá sér. Að lokinni Íslandsheimsókn er Jero á leið til Mannheim í Þýskalandi þar sem hann ætlar að leggja stund á viðskipta- og hagfræði og óskum við honum góðs gengis.