Mikið um að vera á Tjarnardögum

Þessa vikuna voru svokallaðir Tjarnardagar í skólanum en þá var hefðbundin kennsla brotin upp á þriðjudegi og miðvikudegi . Á þriðjudagsmorgun var valkynning þar sem nemendur skólans gátu kynnt sér þá valáfanga sem í boði eru næsta vetur. Eftir hádegi gerðu nemendur síðan ýmislegt sér til skemmtunar á meðan kennarar skólans sátu húsþing undir yfirskriftinni Bekkjarandi og hópastarf. Þar fluttu Vanda Sigurgeirsdóttir og Anna Steinsen fyrirlestur um hvernig efla mætti bekkjaranda og stuðla að vellíðan allra í bekknum auk þess sem þær fjölluðu um árangursríkar leiðir í hópastarfi. Í kjölfar fyrirlestursins gátu kennarar tekið þátt í þremur málstofum. Í einni þeirra var fjallað um eineltisáætlun og eineltisteymi skólans, í annarri voru umræður um hlutverk kennara í að skapa góðan bekkjaranda og í þeirri þriðju sögðu Anna Lilja Björnsdóttir og Ívar Orri Kristjánsson, nemendur í tómstundafræði, frá hópeflisverkefni sínu í 1. bekk. Á miðvikudeginum var mikið um að vera og áhersla lögð á ýmis fræðandi erindi fyrir nemendur. Til dæmis voru kynningar frá Amnesty International, Rauða krossinum, Dale Carnegie og björgunarsveitunum. Sigga Dögg var auk þess með kynfræðslu, Matti Ósvald Stefánsson, markþjálfi, hélt erindi um jákvæðni og að hafa trú á sér og Lilja Ósk Úlfarsdóttir, sálfræðikennari, kenndi hugleiðslu. Nemendur gátu líka lært félagsvist, fræðst um umhverfismál, skiptinám og lært sirkuskúnstir svo dæmi séu tekin. Hér má sjá myndir frá Tjarnardögunum sem lýkur svo með árshátíð nemenda fimmtudaginn 23. febrúar.