Heimsókn frá Cherry Creek USA


Síðastliðna helgi tók kór Kvennaskólans á móti menntaskólakór frá Cherry Creek, USA. Æfingar, pizzupartý og almenn gleði var í Uppsölum og aðstaðan frábær að mati gestanna. Undirbúningur vegna heimsóknar hafði staðið í dágóðan tíma og kórarnir héldu saman tónleika í Fríkirkjunni laugardaginn 25. mars. Kór Menntaskólans í Reykjavík var gestur á tónleikunum. Vel var mætt á tónleikana og kórarnir slógu í gegn. Cherry Creek skólinn er margrómaður fyrir tónlistarstarf í skólanum og hlaut Grammy verðlaun árið 2014 fyrir framlag sitt til tónlistarmenntunar í almennum skólum.
 
Heimsóknin heppnaðist einstaklega vel og bundust nemendur traustum böndum í söng og vinskap. Cherry Creek skólinn telur 3.600 nemendur  - en kórinn þar æfir daglega á skólatíma og færri komast að en vilja. Kvennókórinn stóð sig með mikilli prýði á tónleikunum en kórarnir sungu bæði saman og sitt í hvoru lagi. Efnisskráin var fjölbreytt en þarna mættust tveir ólíkir tónlistarmenningarheimar, íslensku þjóðlögin dundu í bland við amerísk og kórarnir spreyttu sig á efni hvers annars og sungu saman á íslensku og ensku. 
 
Nemendur og stjórnendur Cherry Creek kórsins senda þakkir sínar til skólans og þakka vel fyrir sig.