Góðir grannar

Undanfarna mánuði hafa miklar framkvæmdir farið fram að Fríkirkjuvegi 11, næsta húsi við gömlu aðalbyggingu Kvennaskólans sem byggð var árið 1909. Athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson er nú eigandi hússins og ekkert hefur verið til sparað í því skynni að gera hús og lóð sem glæsilegust og i anda langafa hans, Thors Jensen, sem byggði húsið árið 1908.

Einn síðasti verkþáttur lóðaframkvæmdanna var að fá listamanninn Kristin E. Hrafnsson til þess að koma með hugmynd að verki sem tengdi saman lóðir húsanna – og tryggja nemendum Kvennaskólans sem greiðasta leið á milli kennslustunda í gamla skólahúsinu og húsnæði skólans, Uppsölum, í Þingholtsstræti. Það má með sanni segja að nemendur gangi úr ,,þessum tíma í annan tíma.“ Einnig hefur hiti verið leiddur undir vandaða hellulögnina til þess að tryggja nemendum og öðrum vegfarendum sem greiðasta för yfir vetrartímann.