Útskrift stúdenta 25. maí

Brautskráning stúdenta frá Kvennaskólanum  fór fram við hátíðlega athöfn í Háskólabíói á uppstigningardag.  Kór Kvennaskólans söng, Ernir Guðmundsson fráfarandi formaður Keðjunnar flutti ávarp og Kolka Heimisdóttir nýstúdent einnig, en hún og fleiri komu öllum á óvart með skemmtilegu söngatriði. Fimm starfsmenn voru kvaddir eftir langt og farsælt starf við skólann og ávarpaði einn þeirra, Ingveldur Sveinbjörnsdóttir námsráðgjafi, samkomuna.  Fulltrúi 75 ára afmælisárgangs Kvennaskólans (útskrifaðar 1942) Björg Einarsdóttir, minntist gamla tímans í ræðu sinni.  

Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Urður Gunnsteinsdóttir með einkunnina 9,68.  Fjöldi nemenda fengu verðlaun fyrir góðan námsárangur  og félagsstörf og Gettu betur liðið fékk viðurkenningu fyrir frábæran árangur og sigur í keppninni á þessu ári.

Til hamingju nýstúdentar!

Myndir frá athöfninni má sjá hér

Ræða skólameistara Hjalta Jóns Sveinssonar

Kvennaskólinn í Reykjavík hefur nú sem endranær starfað af krafti á nýliðnu skólaári og starfsmenn hafa lagst á eitt um að árangurinn gæti orðið sem bestur – hvort sem um er að ræða gæði þeirrar þjónustu sem við veitum eða rekstur stofnunarinnar.  Í vetur hófu 646 nemendur nám á haustönn og um 608 á vorönn eftir að 16  stúdentar brautskráðust í desember. Í dag brautskrást 152 nemendur frá skólanum.

 

Þetta alltaf jafnánægjuleg stund. Það hefur mikil áhrif á mann að skynja gleðina, spennuna og hátíðleikann sem fylla hjörtu bæði nemendanna sem eru í þann mund að brautskrást frá skólanum og aðstandenda þeirra. Nemendur eiga að baki erfitt og krefjandi nám auk þess að hafa tekið út mikinn  þroska þau ár sem þeir hafa stundað nám við skólann. Ég hef ekki getað annað en hrifist af dugnaði þessara ungmenna þann stutta tíma sem ég hef haft til að kynnast þeim. Þau víla ekki fyrir sér að ganga á milli húsa skólans allan veturinn í alls kyns veðrum; gamla skólans við Fríkirkjuveg 9, Miðbæjarskólans við Fríkirkjuveg 1 og svo Uppsala, sem við köllum svo, við Þingholtsstræti. Í öllum veðrum þurfa þau að sækja kennslustundir út og suður og færðin misjöfn. En þau kvarta aldrei nokkurn tíma og mæta í kennslustundirnir bara ennþá hressari en ella. Þau kalla ekki allt ömmu sína í þessum efnum enda stundum aðeins búin strigaskóm, jafnvel aðeins inniskóm á fótum.  Við búum við þær aðstæður að halda úti starfi í tveimur af elstu skólahúsum á landinu, sem sannarlega eru ekki að öllu leyti byggð með kröfur okkar samtíma í huga. Mér finnst krakkarnir sýna þessum gömlu húsum og þessari sérstöðu skólans  mikið skilning og umfram allt virðingu. Reykjavíkurborg má vera hreykin af því að hafa þessar gömlu og virðulegu menntastofnanir, Menntaskólann og Kvennaskólann, hér í hjarta gamla miðbæjarins. Nemendur þeirra glæða hann lífi og litum. Og ef þetta unga fólk sækti ekki þessa skóla hér við Fríkirkjuveg og Lækjargötu væru hér engir lengur á ferli nema erlendir ferðamenn vegna þess að nær allt athafnalíf, fyrir utan rekstur matsölustaða, kaffihúsa, skemmtistaða og hótela, er að mestu flutt af svæðinu. Þess vegna tel ég að starfsemi þessari tveggja gömlu og virðulegu menntastofnana, að ógleymdu Alþingi við Austurvöll, viðhaldi íslenskri menningu og þjóðarsögu á grunni fyrstu byggðar hér á landi.

 

Félagslíf

Þann stutta tíma sem ég hef verið hér við störf hef ég  ekki bara orðið vitni að metnaðarfullu námi nemenda heldur ekki síður óhemju kröftugu og fjölbreyttu félagslífi.

Þetta sést best á  söngkeppninni Rymju, árshátíðinni, glæsilegri sýningu Fúríu á Litlu hryllingsbúðinni í Iðnó, miklum áhuga á og góðum árangri í Gettu betur, Morfís, Tjarnardögum, kvennóleikunum,  jafnréttisviku, góðgerðaviku, glæsilegu skólablaði og svona mætti lengi telja. Slíkra hæfileika, sköpunargleði og menningar hefur skólasamfélagið fengið að njóta í ríkum mæli. Og við kennararnir og annað starfsfólk leitumst við að taka þátt og leggja okkar lóð á vogarskálarnar.

Reyndar hefur Kvennaskólinn oftar en ekki verið í fremstu röð í hvers konar keppnum og þetta árið gerði lið Kvennaskólans í Gettu betur, skipað þeim, Fjólu Ósk Guðmannsdóttur, Hlöðveri Skúla Hákonarsyni og Óskari Erni Bragasyni  -  sér lítið fyrir og sigraði keppnina af miklu öryggi og aðdáunarverðri yfirvegun.

Þá hafa nemendur okkar náð frábærum árangri í  í alls konar þrautum og keppnum á landsvísu er tengjast námi þeirra meðal annars í raungreinum og tungumálum. Af þessu erum við líka stolt.

Þá er þess að geta að hópur nemenda hefur tekið þátt verkefnum sem styrkt eru ýmist af Erasmus-áætlun Evrópusambandsins eða Nordplus styrkjakerfi Norðurlandaráðs. Við höfum því átt í samstarfi við marga erlenda skóla og  menntastofnanir. Höfum við af þeim sökum tekið á móti fjölmörgum nemendum, kennurum og skólastjórnendum og sent fólk frá okkur í sama mæli til þeirra.

Þá er þess að geta að nemendur okkar og kennarar hafa verið á ferð og flugi til stórborga Evrópu í tengslum við nám sitt í þriðja tungumáli, sögu og félagsvísindum og hafa hvervetna vakið athygli fyrir góða framkomu og áhuga á viðfangsefninu hverju sinni.

Loks langar mig að vekja athygli á að fjölmargir nemendur okkar stunda margvíslegar íþróttir og sumir hafa skipað sér í fremstu röð í sínum greinum og taka þátt fyrir hönd þjóðarinnar í keppnum á alþjóðlegum vettvangi - sumir jafnvel  í keppni og æfingum með bæði unglingalandsliðum og aðallandsliðum. Einnig stunda fjölmargir nemendur metnaðarfullt tónlistarnám meðfram námi sínu við Kvennaskólann – og þess eru mörg dæmi að þeir nái mjög góðum árangri í öllum sínum viðfangsefnum í senn; í skólanum, íþróttum og í tónlistarnámi. Ég spyr stundum sjálfan mig að því  hvernig þetta sé hægt; vegna þess að við gerum mjög miklar kröfur til nemenda okkar í náminu; sem í raun er á við fullt starf. Svo finnst okkur auðvitað líka sjálfsagt að allir nemendur taki virkan þátt í félagslífinu.

 

 

Stytting náms til stúdentsprófs

Stytting náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú er ekki sjálfsögð og einföld aðgerð. Ég fullyrði samt að hér í Kvennaskólanum hafi tekist að skipuleggja námið þannig að við getum sagt með nokkurri vissu að stúdentarnir okkar séu síst ver búnir undir  frekara nám á háskólastigi en í fjögurra ára kerfinu.

Við höfum smám saman verið að lengja skólaárið, við erum að fjölga kennsludögum og fækka prófadögum til að nýta tímann betur. Ýmsar breytingar hafa jafnframt orðið á námsmati í fjölmörgum greinum; símat og svokallað leiðsagnarmat hefur orðið algengara síðustu árin á kostnað stórra lokaprófa. Það er mat mitt að fjölbreytt námsmat og kennsluhættir skili betri árangri og betri menntun.

Við höfum þá trú að með þeirri gríðarlegri og oft skapandi vinnu sem fram hefur farið í skólanum að undaförnu hafi tekist að gera góðan skóla ennþá betri, sem mun tryggja honum áfram forystuhlutverk á meðal íslenskra framhaldsskóla. Við vonum jafnframt að nemendur okkar verði betur undir það búnir að takast á við nútíma samfélag og alþjóðlegt umhverfi, séu víðsýnni, sjálfstæðari og ekki síst áhugasamari um nám sitt en áður.

Yfir 90% nemenda ljúka stúdentsprófi frá Kvennaskólanum á þremur árum. Þetta skilar miklum sparnaði fyrir skólakerfið en hefur líka kostað miklar fórnir. Framhaldsskólarnir hafa ekki verið séstaklega vel settir fjárhagslega eins og margrætt hefur verið um á opinberum vettvangi á síðustu árum. Því var lofað þegar styttingin hafði verið ákveðin og hrundið af stað að þeir fjármunir sem myndu sparast ættu að  haldast innan skólanna. En sú verður því miður ekki raunin ef marka má nýjustu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára en svo er að sjá  að klipið verði hressilega af þessu ætlaða fé.

Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi.

 

Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur, kæru nýstúdentar, nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð – háa sem lága.

Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu.

 

Maístjarnan, ný ljóðabókaverðlaun á vegum Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafn Íslands, var afhent  á degi ljóðsins þann 18. maí. Verðlaunahafinn, Sigurður Pálsson, flutti ávarp  af því tilefni sem birtist í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag.

Ég ætla að leyfa mér að grípa niður í frábæran texta skáldsins þar sem það fjallar um eðli ljóðlistarinnar.

 

Ljóðlistin er innri rödd bókmenntanna. Rödd ljóðsins er rödd mennskunnar sem aldrei gefst upp í heimi sem böðlast áfram. Rödd friðar í ofbeldisdýrkandi heimi. Rödd mannréttinda og jöfnuðar í heimi þar sem átta menn eiga jafnmikil auðæfi og 50% af mannkyninu. Rödd frelsis og lýðræðis í heimi sem er dauðþreyttur á misnotkun á hugtökunum frelsi og lýðræði. Rödd ljóðsins vinnur gegn ofstopafullri einsleitni í notkun tungumálsins, hún býr yfir margræðni og blæbrigðum, býr til hugrenningatengsl, tilfinningatengsl, allan fínvefnað tungumálsins. En umfram allt er rödd ljóðsins hin heilaga innri rödd hvers og eins, röddin sem gerir okkur að einstaklingum í samfélagi annarra.

 

Ég vil leyfa mér jafnframt að fara með eitt ljóð úr hinni nýju ljóðabók Sigurðar Pálssonar, Ljóð muna rödd.

 

HÉR Á SPÁSSÍU EVRÓPU

 

Héðan af spássíu Evrópu

horfi ég á eilífð álfunnar

 

Að venju vegast á

bjartsýni og níhilismi

 

Hér á spássíu Evrópu

höfum við skrifað nótur

um meginmálið á síðunni

 

Við erum á sömu blaðsíðu

en við erum á spássíunni

 

Sigurður Pálsson,  Ljóð muna rödd, bls. 10

 

 

Ágætu nýstúdentar.

Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð – leggið alúð við móðurmálið ykkar, hvert sem það er, og hæfileikana sem ykkur eru í blóð bornir.

 

Loks vil ég þakka samstarfsfólki mínu fyrir vel unnin störf á önninni og undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðar okkar í dag.