Hollvinafélag Kvennaskólans

Sunnudaginn 1.október var haldinn stofnfundur Hollvinafélags Kvennaskólans. Á þeim fundi var Bjarni Ólafur Ólafsson (útskrifaður 1986) kosinn formaður. Eiríkur Orri Agnarsson (útskrifaður 2015) og Þorgerður Anna Arnardóttir (útskrifuð 1992) sitja með honum í stjórn. Varamenn í stjórn eru Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir (útskrifuð 2016) og Þórdís Þórhallsdóttir (útskrifuð 1999). Ákveðið var að árgjald félagsins yrði 2000 kr. Ný stjórn mun á næstunni kynna hvernig hægt verður að ganga í félagið. Hjalti Jón skólameistari tók meðfylgjandi mynd af fundarmönnum í lok fundar.

Í fyrstu greinum félagsins segir:

1. gr.: Félagið heitir Hollvinafélag Kvennaskólans í Reykjavík. Heimili þess og varnarþing eru í Reykjavík.

2. gr.: Hlutverk félagsins er að efla tengsl þeirra sem bera hag Kvennaskólans í Reykjavík fyrir brjósti og stuðla að því              að  hann haldi stöðu sinni í íslensku menntakerfi.

Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að:

  • efla tengsl við samfélagið, brautskráða nemendur og aðra þá er bera hag skólans fyrir brjósti.
  • vera vettvangur fyrir umræðu um þróun  náms og kennslu í Kvennaskólanum í Reykjavík.
  • vera bakhjarl skólans í tengslum við þátttöku fyrirtækja og einstaklinga í átaksverkefnum er lúta að bættri aðstöðu nemenda til náms og eflingu skólamenningar.
  • stuðla að því að afmælisárgangar komi saman.