Kvennó keppti í úrslitakeppni í Boxinu

Kvennó liðið keppti í úrslitakeppni í Boxinu á laugardaginn og lauk við allar þrautirnar með sóma. Átta lið kepptu til úrslita.   MH var í 1.sæti að þessu sinni en okkar fólk stóð sig líka mjög vel þó svo að það væri ekki verðlaunasæti.  Nokkrar myndir af vettvangi sýna að gleði og einbeiting skín af okkar fólki.

Meðal þeirra þrauta sem liðin glímdu við í ár var að hanna og smíða brú úr einu kílói af spaghettíi, forrita díóðulampa fyrir þörungaræktun, smíða bíl úr gosdrykkjadósum og greina gögn úr lygamæli. Þrautirnar eru hannaðar af sérfræðingum fyrirtækja, úr ólíkum greinum iðnaðarins, með aðstoð fræðimanna HR og reyna á verklega og bóklega þekkingu, hugvit, verklag, útsjónasemi og samvinnu þátttakenda. Fyrirtækin sem lögðu þrautir fyrir nemendurna í ár voru: Endurvinnslan, KeyNatura, Valka, Marel, Mannvit, Oddi, NoxMedical og Kóðinn/Skema.

Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Markmið með Boxinu er að kynna og vekja áhuga nemenda í framhaldsskólum á verk- og tækninámi og fjölbreyttum störfum í iðnaði.