Minningarorð um Ingibjörgu H. Bjarnason fyrrverandi skólastjóra Kvennaskólans í Reykjavík


Ingibjörg H. Bjarnason fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867 og eru því 150 ár frá fæðingu hennar.  Hún var dóttir Hákonar Bjarnasonar útgerðarmanns á Bíldudal og Jóhönnu K. Þorleifsdóttur.  Ingibjörg ólst upp við góðan efnahag og atlæti.  Foreldrum hennar varð tólf barna auðið en sjö þeirra dóu í æsku.  Þau sem eftir lifðu voru Ingibjörg og bræður hennar fjórir en öll urðu þau þjóðkunn.  Faðir Ingibjargar  lést í sjóslysi 1877 og nokkrum árum síðar fluttist fjölskyldan  til Reykjavíkur og fór Ingibjörg í Kvennaskólann 1881.  Hún fór síðar til Kaupmannahafnar og stundaði nám þar, meðal annars í leikfimi og mun vera fyrsta íslenska konan sem lauk námi í þeirri grein. Árið 1893 kom Ingibjörg heim og hóf kennslu við Kvennaskólann og barnaskóla Reykjavíkur.  Kenndi hún kvennaskólastúlkum leikfimi, dans, teikningu og útsaum, dönsku og heilsufræði. Árið 1906 tók hún við af Þóru Melsteð sem skólastjóri.  Gamla skólahúsið vð Austurvöll var þá orðið of lítið og vann Ingibjörg að því að útvega skólanum nýtt húsnæði við Fríkirkjuveg 9.  Þegar skólinn flutti í nýja húsið var sett á stofn húsmæðradeild við skólann og heimavist, en húsmæðradeildin starfaði til ársins 1942. Ingibjörg mun hafa hafa stýrt skólanum með miklum myndarbrag og fylgdist vel með nýjungum í skólamálum erlendis.

Ingibjörg tók virkan þátt í félagsmálum og baráttu fyrir réttindum kvenna.  Hún var fyrsta konan sem kjörin var til alþingis 1922 .  Þá var hún í efsta sæti á sérstökum kvennalista sem þá bauð fram.  Síðar sat hún á þingi fyrir Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, en þingsetu lauk 1930. Á þingi lét hún einkum til sín taka menntamál kvenna og ýmis mannúðar- og félagsmál, svo sem landsspítalamálið, sem henni var mjög hjartfólgið. Hún var og ein af frumkvöðlum að almennum samskotum til stofnunar spítalans, og formaður landsspítalasjóðsins var hún frá upphafi til dauðadags. Í byggingarnefnd spítalans átti hún og sæti. Áhuga hennar og atorku í öllu því starfi er við brugðið. 

Ingibjörg Bjarnason var kona aðsópsmikil, einörð og fylgin sér, hélt fast á þeim málum, er hún tók að sér og gekk að öllu með dugnaði. Hún mun jafnan verða talin í fremstu röð þeirra kvenna, er tóku að sinna almennum þjóðmálum með fullum réttindum eftir stjórnarskrárbreytinguna 1915, þá er konum var veittur kosningarréttur.

Ingibjörg lést 1941 þá 73 ára að aldri.  Hún ánafnaði skólanum megnið af eignum sínum.  Skrifstofuhúsgögn sín ánafnaði hún skólanum og ætlaðist til að þau væru notuð á skrifstofu forstöðukonu.  Eru þessi húsgögn enn á skrifstofu skólastjóra.

Heimildir:
Sigríður Briem Thorsteinsson. (1974).  Ingibjörg H. Bjarnason.  Í Guðrún P. Helgadóttir
     ...[et. al.] (ritnefnd), Kvennaskólinn í Reykjavík 1874-1974 (bls. 207-236). Reykjavík:
    Mál og menning

Haraldur Guðmundsson (1941). Minning látinna manna. Alþingistíðindi B-deild. Sótt 15.
    desember 2017 af  https://www.althingi.is/altext/raeda/?rnr=62&lthing=58