Útskrift stúdenta 20. desember

Útskrifaðir voru sextán stúdentar frá Kvennaskólanum 20. desember.  Athöfnin fór fram í sal skólans í Uppsölum, sem búið var að færa í hátíðarbúning með jólatré og jólaljósum.  Kvennókórinn söng og Sigurhjörtur Pálmason útskriftarnemi lék á píanó.  Í ræðu sinni minntist skólameistari Hjalti Jón Sveinsson, Ingibjargar H. Bjarnason fyrrverandi skólastjóra skólans sem var fyrsta konan sem kjörin var til alþingis en hundrað og fimmtíu ár eru frá fæðingu hennar.  Einnig rakti hann í stuttu máli sögu húsanna þriggja sem skólinn hefur til umráða.  Fyrir hönd nýstúdenta flutti ávarp Eik Arnþórsdóttir. 

Hæstu einkunn í útskriftarhópnum hlaut Björgvin Hrólfsson og fékk hann verðlaun fyrir góðan árangur í eðlisfræði. Sigurhjörtur Pálmason hlaut viðurkenningu fyrir mikla og góða þátttöku í félagslífinu öll árin sín í skólanum og Ingveldur Lúðvíksdóttir Gröndal  viðurkenningu fyrir formennsku í  margmiðlunarráði veturinn 2016-2017.

Myndir má sjá hér

 Ræða skólameistara

Ágætu brautskráningarnemar, aðstandendur, samstarfsfólk og aðrir gestir.
Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á braustkráningu Kvennaskólans í Reykjavík á jólaföstu 20. desember. 
Það var Ársæll Másson, stærðfræðikennari, sem lék svo listavel á gítarinn hér áðan.

Í dag munum við brautskrá 16 stúdenta. Þetta verður því fámenn en góðmenn athöfn.
Mér finnst þetta alltaf jafnánægjuleg stund. Það hefur ævinlega mikil áhrif á mig að skynja gleðina og hátíðleikann sem fylla hjörtu nemendanna sem eru í þann mund að brautskrást, aðstandenda þeirra og starfsfólks skólans. Nemendur eiga að baki erfitt og krefjandi nám auk þess að hafa tekið út mikinn andlegan og líkamlegan þroska þau ár sem þeir hafa sótt skóla hér í hjarta Reykjavíkur. Þeir munu vonandi njóta góðs af því í framtíðinni að hafa stundað nám í framsæknum og nútímalegum skóla sem byggir á gömlum grunni og starfar í húsum sem komin eru til ára sinna.  Það er von okkar að nemendur okkar  uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til þeirra stefni þeir á áframhaldandi nám á háskólastigi og hvet ég þá eindregið að láta ekki slíkt tækifæri úr greipum sér ganga.

Til fróðleiks má geta þess að Miðbæjarskólinn var tekinn í notkun 1897-1898, og Kvennaskólahúsið við Fríkirkjuveg 1909. Þetta eru glæsilegir minnisvarðar um menningu og menntun –  en ekki síður er ánægjulegt hversu mikilvægu hlutverki þessar byggingar gegna enn í dag. 
Í síðustu viku var þess minnst, m..a á Alþingi, að fröken Ingibjörg H. Bjarnason skólastjóri Kvennaskólans fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867 og eru því 150 ár frá fæðingu hennar. Ingibjörg innritaðist Kvennaskólann 1881.  Hún fór síðar til Kaupmannahafnar og stundaði nám þar, meðal annars í leikfimi og mun vera fyrsta íslenska konan sem lauk námi í þeirri grein. Árið 1893 kom Ingibjörg heim og hóf kennslu við Kvennaskólann og Barnaskóla Reykjavíkur, sem síðar fékk heitið Miðbæjarskólinn.  Kenndi hún kvennaskólastúlkum leikfimi, dans, teikningu, útsaum, dönsku og heilsufræði. Árið 1906 tók Ingibjörg við skólastjórninni af frú Þóru Melsteð, stofnanda skólans.  Gamla skólahúsið við Austurvöll var þá orðið of lítið og vann Ingibjörg að því að útvega skólanum nýtt húsnæði við Fríkirkjuveg 9.  Ingibjörg tók virkan þátt í félagsmálum og baráttu fyrir réttindum kvenna.  Hún var fyrsta konan sem kjörin var til setu á Alþingi 1922 .  Þá var hún í efsta sæti á sérstökum kvennalista sem þá bauð fram.  Síðar sat hún á þingi fyrir Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, en þingsetu lauk lauk Ingibjörg árið 1930. Á þingi lét hún einkum til sín taka menntamál kvenna og ýmis mannúðar- og félagsmál, svo sem landsspítalamálið, sem henni var mjög hjartfólgið. Hún var og ein af frumkvöðlum að almennum samskotum til stofnunar spítalans, og formaður landsspítalasjóðsins var hún frá upphafi til dauðadags. Sjóðurinn starfar enn og eru fundir hans ævinlega haldnir á skrirstofu skólameistara Kvennaskólans. Ingibjörg lést 1941 þá 73 ára að aldri.  Skrifstofuhúsgögn sín ánafnaði hún skólanum og ætlaðist til að þau væru notuð á skrifstofu forstöðukonu.  Eru þessi húsgögn enn í sérstöku viðhafnarherbergi, svokölluðu plussi, á milli skrifstofu skólans og skólameistara.

Nú erum við stödd hér í Þingholtsstræti 37 sem hýsti Verslunarskóla Íslands frá því 1963 til 1986. Kvennaskólinn fékk húsið til fullra yfirráða 1992 og hefur það verið kallað Uppsalir síðan. Uppsalir eru þriðji punkturinn í þeim þríhyrningu sem hús Kvennaskólans mynda hér í gömlu Reykjavík. Ákjósanlegt væri auðvitað að hafa alla starfsemi skólans undir sama þaki en það hefur einnig kosti að að geta boðið nemendum upp á þá hollu hreyfingu dag hvern að ganga frá einni byggingu til annarrar á milli Tjarnarbakkans og Þingholtanna. 
Til glöggvunar má geta þess að mörk Þingholtanna eru samkvæmt bestu heimildum um gömlu Reykjavík um Lækjargötu í vestri, Ingólfsstræti í austri, Hellusund í suðri og Bankastræti í norðri.
Í bókum Páls Líndals  Sögustaðir við Sund er að finna ýmsan fróðleik um hverfi þetta.
Páll segir að Þingholtin og gatan Þingholtsstræti séu nefnd eftir tómthúsbýlinu Þingholti sem reist var árið 1765 á þeim slóðum þar sem nú er Þingholtsstræti 3. 
Ég átti því láni að fagna að kenna í þessu húsi um skeið á tímum Verslunarskólans og var það einstaklega ánægjulegt. Í þá daga var nafntogaðasta nemendasjoppan á landinu rekin hér í þessu húsi í pínulítilli kompu frammi á gangi. Veltan var mikil enda verslingar við stjórnvölinn og voru ótrúlega duglegir við að afla sér skotsilfurs fyrir útskriftarferðina, sem einnig var með því glæsilegasta sem þekktist þá. Hér á neðri hæðinni voru í þann tíð þrjú kennslurými auk lítillar kennarastofu með svolitlu mötuneyti. Mig rekur ekki minni til þess að sérstakt mötuneyti hafi verið rekið fyrir nemendur – sem urðu að láta sér samlokur og sjoppufæði nægja. Eftir að verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli hófst með þátttöku allra framhaldsskóla landsins var hvers konar sjoppufæði, eins og gosi og sælgæti, hent út úr skólunum og síðan hefur verið harla erfitt, og líklega ógjörningur, að reka sjoppu sem skilar hagnaði. Þess í stað þarf skólinn að tryggja að nemendum bjóðist gott og hollt fæði. Og hér í þessum sal er mötuneyti Kvennaskólans rekið auk þess sem salurinn er nýttur undir hvers konar félagsstarf nemenda. 

Við lifum á tímum mikilla breytinga og hraðrar þróunar á flestum sviðum.
Reyndar er það svo að þróunin í upplýsingatækni og hvers konar miðlun er svo hröð að margir þeir nemendur sem við erum að kveðja í dag og hinir sem á eftir koma munu velja sér störf og viðfangsefni sem við þekkjum jafnvel ekki í dag. Tækniframfarir nútímans hafa verið kallaðar fjórða iðnbyltingin og má í því sambandi nefna gífurlegar þróun í margvíslegri tækni sem styðst við hina svokölluðu gervigreind. Í skólastofunni eru nemendur sítengdir við umheiminn í gegnum síma sína og fartölvur og oft stöndum við kennarar ráðþrota gagnvart þeirri breytingu sem orðin er á starfsumhverfinu. Við þurfum sífellt að laga hugsun okkar að nýjustu tækni. Skólinn hefur breyst mikið á síðustu 10 árum og við sjáum það ekki í dag hvernig hann mun líta út að tíu árum liðnum. 

Ég vil þakka nemendum skólans og starfsfólki fyrir umburðurlyndi, dugnað og seiglu. 
Það hefur verið mikill kraftur í skólastarfinu í haust eins og endranær. 
Mig langar að geta þess hér við þetta tækifæri hvað mæting og ástundun nemenda Kvennaskólans er framúrskarandi. Á nýliðinni haustönn voru 42 % nemenda með 96% mætingu eða meira, þar af voru 28% nemenda skólans með 98% mætingu eða meira og hafa hlotið af því tilefni sérstaka viðurkenningu. 
Og þó svo að sorfið hafi að í rekstri undandfarin ár er nú landið farið að rísa og skólinn heldur áfram að þróast og eflast. ,