Frönskukeppni

Frönskukeppnin 2018 fór fram laugardaginn 14. apríl í franska bókasafninu, Alliance française, í Tryggvagötu. Þema keppninnar var: „Voilà quelqu‘un d‘extraordinaire que je connais“ og gekk út á að þátttakendur gerðu stutt myndband um einstakling sem þeir þekkja og finnst skara fram úr á einhverju sviði. Það er Félag frönskukennara á Íslandi ásamt Alliance française og Franska sendiráðinu sem skipuleggja keppnina ár hvert. Í dómnefnd voru Graham Paul sendiherra Frakklands á Íslandi, Jean-François Rochard framkvæmdastjóri Alliance française og Ásta Ingibjartsdóttir frönskukennari við Háskóla Íslands.

Fjórir nemendur úr Kvennaskólanum tóku þátt í þetta sinn, þær Auður Helgadóttir úr 3FS, Katla Björk Gunnarsdóttir úr 2NA og Hekla Salóme Magnúsdóttir og Magdalena Radwanska úr 2H. Allar gerðu þær fín myndbönd um vini og vandamenn og tvær þeirra gerðu sér lítið fyrir og hrepptu verðlaun. Þetta voru þær Hekla Salóme Magnúsdóttir í 2H sem lenti í 1. sæti (til hægri á myndinni) og Auður Helgadóttir úr 3FS (til vinstri) sem hafnaði í 2. sæti. Í verðlaun fengu þær m.a. gjafakort á veitingastað, áskrift að frönsku tímariti, bók um Frakkland og félagsaðild að Alliance française, en verðlaunin eru frá franska sendiráðinu.

Við óskum þeim Auði og Heklu innilega til hamingju!