Útskrift stúdenta 25. maí 2018

Brautskráning stúdenta frá Kvennaskólanum  fór fram við hátíðlega athöfn í Háskólabíói 25. maí.  Kór Kvennaskólans söng og Sólrún Embla Þórðardóttir lék á gítar við söng þeirra Örnu Leu Magnúsdóttur og Anítu Mjöll Ásgeirsdóttur.  Lilja Dögg Gunnarsdóttir kórstjóri lék undir á flygil.  Kvintettinn 55 þeir Daníel Óskar Jóhannesson, Greipur Rafnsson, Hallmar Orri Schram, Kolbeinn Hringur Bambus Einarsson og Rúnar Haraldsson fluttu tónlistaratriði.  Rósa María Bóasdóttir fráfarandi formaður Keðjunnar flutti ávarp nýstúdents.

Það hefur tíðkast í Kvennaskólanum að mála portrett af forstöðukonum áður fyrr og skólameisturum, síðustu ár.  Við athöfnina var afhjúpuð portrettmynd af Ingibjörgu S. Guðmundsdóttur sem lét af störfum fyrir tveimur og hálfu ári eftir um fjörutíu ára starf við skólann.
Að lokum flutti Ásdís Ingólfsdóttir kennari við Kvennaskólann ljóð úr óútgefinni ljóðabók sinni, og Ingigerður Ágústsdóttir fyrrverandi nemandi í skólanum og núverandi meðlimur Hollvinafélags skólans ávarpaði samkomuna.


Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Berglind Rut Bragadóttir með einkunnina 9,79.  Fjöldi nemenda fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur, félagsstörf  og skólasókn.  Í ræðu skólameistara má sjá hverjir hlutu viðurkenningar.

Myndir


Ræða skólameistara


Kvennaskólinn í Reykjavík

Brautskráning í Háskólabíói 25. maí 2018

 

Kvennaskólinn í Reykjavík hefur nú sem endranær starfað af krafti á nýliðnu skólaári og starfsmenn hafa lagst á eitt um að árangurinn gæti orðið sem bestur – hvort sem um er að ræða gæði þeirrar þjónustu sem við veitum eða rekstur stofnunarinnar.  Í vetur hófu 646 nemendur nám á haustönn og um 608 á vorönn eftir að 16  stúdentar brautskráðust í desember. Í dag brautskrást 195 nemendur frá skólanum.

Þetta alltaf jafnánægjuleg stund. Það hefur mikil áhrif á mann að skynja gleðina, spennuna og hátíðleikann sem fylla hjörtu bæði nemendanna sem eru í þann mund að brautskrást frá skólanum og aðstandenda þeirra. Nemendur eiga að baki erfitt og krefjandi nám auk þess að hafa tekið út mikinn  þroska þau ár sem þeir hafa stundað nám við skólann. Ég hef ekki getað annað en hrifist af dugnaði þessara ungmenna þann stutta tíma sem ég hef haft til að kynnast þeim. Þau víla ekki fyrir sér að ganga á milli húsa skólans allan veturinn í alls kyns veðrum; gamla skólans við Fríkirkjuveg 9, Miðbæjarskólans við Fríkirkjuveg 1 og svo Uppsala, sem við köllum svo, við Þingholtsstræti. Í öllum veðrum þurfa þau að sækja kennslustundir út og suður og færðin misjöfn. En þau kvarta aldrei og mæta í kennslustundirnir bara ennþá hressari en ella. Þau kalla ekki allt ömmu sína í þessum efnum enda stundum aðeins búin strigaskóm til fóta.  Við búum við þær aðstæður að halda úti starfi í tveimur af elstu skólahúsum á landinu, sem sannarlega eru ekki að öllu leyti byggð með kröfur okkar samtíma í huga. Mér finnst krakkarnir sýna þessum gömlu húsum og þessari sérstöðu skólans  mikið skilning og umfram allt virðingu. Reykjavíkurborg má vera hreykin af því að hafa þessar gömlu og virðulegu menntastofnanir, Kvennaskólann og Menntaskólann í Reykjavík, hér í hjarta gamla miðbæjarins. Nemendur þeirra glæða hann lífi og litum. Og ef þetta unga fólk sækti ekki þessa skóla hér við Fríkirkjuveg og Lækjargötu væru hér engir lengur á ferli nema erlendir ferðamenn vegna þess að nær allt athafnalíf, fyrir utan rekstur matsölustaða, kaffihúsa, skemmtistaða og hótela, er að mestu flutt af svæðinu. Þess vegna tel ég að starfsemi þessari tveggja gömlu og virðulegu menntastofnana, að ógleymdu Alþingi við Austurvöll, viðhaldi íslenskri menningu og þjóðarsögu á grunni fyrstu byggðar hér á landi.

Þau þrjú á sem langflestir nemendur hafa verið hér í skólanum hafa þeir notið kennslu og leiðsagnar metnaðarfullra og vel menntaðra kennara sem allir eru sérfræðingar á sínu sviði en hér í Kvennaskólanum telur kennarahópurinn um 50 manns.

 

Félagslíf

Við getum státað okkur af metnaðarfullu námi nemenda í skólanum okkar en ekki síður óhemju kröftugu og fjölbreyttu félagslífi.

Þetta sést best á  söngkeppninni Rymju, glæsilegri sýningu leiklistarfélagsins Fúríu á söngleiknum Legally Blonde, Tjarnardögum,  jafnréttisviku, góðgerðaviku, glæsilegu skólablaði, fjörugu kórstarfi, peysafatadeginum og svona mætti lengi telja. Slíkra hæfileika, sköpunargleði og menningar hefur skólasamfélagið fengið að njóta í ríkum mæli. Og við kennararnir og annað starfsfólk leitumst við að taka þátt og leggja okkar lóð á vogarskálarnar.

Reyndar hefur Kvennaskólinn oftar en ekki verið í fremstu röð í hvers konar keppnum og þetta árið gerði lið Kvennaskólans í Gettu betur sér lítið fyrir og varð í öðru sæti af miklu öryggi og aðdáunarverðri yfirvegun og í undanúrslit í ræðukeppni framhaldsskólanna Morfís.

Þá má geta þess að eitt af fimm liðum Kvennaskólans sem tók þátt í keppninni ungir frumkvöðlar að þessu sinni hlaut verðlaun sem besta matvælafyrirtækið fyrir rómaða smjörgerð sína. Þá hafa nemendur okkar náð frábærum árangri og verið í fremstu röð í  í alls konar þrautum og keppnum á landsvísu er tengjast námi þeirra meðal annars í raungreinum og tungumálum.

Svokallaður umhverfishópur hefur starfað innan skólans síðustu tvo vetur undir stjórn kennara í umhverfisfræðum. Þar hefur verið lagt upp úr frumkvæði nemenda í umhverfismálum og má segja að margt hafi áunnist á þessum tíma í þeim efnum en punkturinn yfir i-ið var að skólinn hlaut Grænfánann á nýjan leik á dögunum sem þýðir að skólinn er kominn í landsliðið og nú er um að gera að halda sætinu.

Þá er þess að geta að hópur nemenda hefur tekið þátt í verkefnum sem styrkt eru ýmist af Erasmus-áætlun Evrópusambandsins eða Nordplus styrkjakerfi Norðurlandaráðs. Við höfum því átt í samstarfi við marga erlenda skóla og  menntastofnanir. Höfum við af þeim sökum tekið á móti fjölmörgum nemendum, kennurum og skólastjórnendum og sent fólk frá okkur í sama mæli til þeirra.

Það verða tímamót hjá Kvennaskólanum í Reykjavík á næsta skólaári. Í febrúar verður þess minnst að 100 ár verða liðin frá stofnun nemendafélagsins Keðjunnar. Í bókinni sem gefin var út í tilefni af aldarafmæli skólans árið 1974 segir um stofnun Keðjunnar: Margar tillögur komu fram um nafn á félagið: Framþróin, Dagrenning, Hugrún, Sóley, Keðjan og Sjöfn ... Hinn 27. nóvember 1920 er fyrst minnzt á væntanlega skólaskemmtun og nefnd kosin til þess að sjá um hana.“ Samkvæmt fundargerðum Keðjunnar var fyrsti dansleikurinn ekki haldinn fyrr en í febrúar 1922 þegar félagið var orðið fullra þriggja ára. 

Í febrúar árið 1889 segir frú Þóra Melsteð, stofnandi og fyrsta forstöðukona skólans svo frá í dagbók sinni að ,,dagurinn hafi verið sæmilega góður og hún hafi komið ýmsu í verk. Hún segist enn fremur hafa leyft stúlkunum að dansa eina klukkustund milli 4 og 5 síðdegis einu sinni í viku og þann dag  hafi verið fyrsti tíminn. Þóra segir, að dansinn sé saklaus skemmtun, sem geti haft góð áhrif á framkomu stúlknanna og göngulag, en mest sé þó um vert, að þær geti orðið hressari við störf sín.“

Við minnumst þess nú á þessari stundu að þann 22. apríl síðastliðinn voru 100 ár liðin frá því að frú Þóra Melsteð lést á 96. aldursári.

 

Góðir samkomugestir. Þó að við getum vissulega verið ánægð með starf skólans okkar og árangur nemenda þá ber okkur líka að taka þátt í þeirri umræðu sem á sér stað um skólamál og kappkosta að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að bæta starf okkar til framtíðar.

Enn er keppst við að tala skólakerfið niður. Sú ákvörðun stjórnvalda að stytta  nám til stúdentsprófs hefur verið vinsælt umræðuefni undanfarin misseri á opinberum vettvangi og ýmsir hafa keppst við að mæla gegn styttingunni sem þeir segja að hafi verið mistök. Bæði séu nemendur ver búnir undir háskólanám en áður auk þess sem þeir séu að kikna undan álagi og dregið hafi af þeim sökum úr þátttöku þeirra í félagslífi og íþróttum. Þetta eru fullyrðingar sem klyfað er á. ,,Okkar viðvaranir virðast hafa átt rétt á sér,“ sagði formaður félags framhalsskólakennara í viðtali á RÚV fyrir skömmu. Ég tek undir það að álagið á bæði nemendur og kennara sé meira í þriggja ára kerfinu en í því gamla. En við vitum jafnframt að fjögur ár var ríflegur tími og mikill tími fór í það á fyrstu önninni að rifja upp námsefni 10. bekkjar. Við höfum góða reynslu af nýju fyrirkomulagi hér  í Kvennaskólanum en fyrstu stúdentarnir brautskráðust samkvæmt því vorið 2012. Má með sanni segja að skólastarfið hafi að mörgu leyti gengið í endurnýjun lífdaga og hverju steini snúið við til þess að námskráin yrði sem best og kennsluhættir við hæfi. Kennarar, stjórnendur og aðrir starfsmenn hafa lagt á sig gríðarlega vinnu og þróunarstarfið stendur enn yfir. Skólaárið hefur verið lengt, stundataflan er þéttari og vinnudagurinn hefur lengst. Sérstökum prófadögum hefur fækkað og tekið hefur verið upp svokallað símat og leiðsagnarmat í æ ríkari mæli.

Yfir 90% nemenda okkar ljúka stúdentsprófi á þremur árum. Þess er jafnframt að geta að félagslíf í skólanum er fjölbreytt og öflugt og innan raða nemenda okkar er fjöldi einstaklinga sem stundar krefjandi íþróttir og/eða eru jafnframt í tónlistar- eða öðru listnámi. Við gerum aftur á móti ekki ráð fyrir því að nemendur okkar hafi tíma til að vinna neitt að ráði meðfram  náminu. Þeir mega aldrei slá slöku við og verða að skipuleggja tíma sinn vel. Ég spyr bara: er eitthvað óeðlilegt við það? Í nágrannalöndum okkar ljúka nemendur stúdentsprófi 19 og jafnvel 18 ára. Er eitthvað  óeðlilegt við það að hið sama sé við lýði hér á landi? Í kennslukönnunum sem lagðar eru fyrir nemendur á hverri önn telja að jafnaði um 85% þeirra að álagið í náminu sé hæfilegt. Þeir sem vilja stendur líka til boða að ljúka náminu á þremur og hálfu ári eða fjórum.

Ég styð heilshugar kjarabaráttu framhaldsskólakennara sem meðal annars felst í því að fá viðurkennt það aukna álag sem styttingunni hefur fylgt. Ég hef jafnframt reynt að leggja mitt á vogarskálarnar í umræðunni um að styrkja þurfi stoðkerfið í framhaldsskólunum; náms- og starfsráðgjöf og að bæta þurfi aðgengi framhaldsskólanema að sálfræðiþjónustu. Að öðru leyti tel ég að stytting náms til stúdentsprófs hafi verið löngu orðin tímabær. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef rétt sé að málum staðið þá séu stúdentarnir okkar úr nýja kerfinu með jafngóða menntun og áður og að sumu leyti séu þeir betur undir háskólanámið búnir. Þeir eru víðsýnni, þeir eru þjálfaðri í að vinna sjálfstætt, færa rök fyrir máli sínu og að tjá sig í töluðu og rituðu máli. Ég tel jafnframt að nemendur okkar standi jafnöldrum sínum í samanburðarlöndum  okkar jafnfætis bæði námslega og í þroska. Við í Kvennaskólunum vitum ekki betur eftir þá reynslu sem við höfum en að gengi nemenda okkar í háskólanámi sé ekki síðra en áður bæði hérlendis og erlendis.

 

Verðlaun afhent.

Þó að sjálft stúdentsskírteinið sé það sem mestu mái skipti þá líka siðvenja að að veita þeim nemendum viðurkenningar sem skarað hafa fram úr eða náð bestum árangri í einstökum greinum. Það getur stundum verið mjótt á mununum.

Þær Ingibjörg Axelsdóttir námsstjóri og Oddný Hafberg, aðstoðarskólameistari verða mér til aðstoðar. 

 

Félagslífið:

 

Viðurkenning fyrir störf í þágu nemendafélagsins.

            Rósa María Bóasdóttir formaður Keðjunnar

            Rúnar Haraldsson gjaldkeri

Daníel Óskar Jóhannesson formaður skemmtinefndar

Kolbeinn Hringur Einarsson  formaður listanefndar

Vigdís Halla Birgisdóttir formaður Fúríu

                                 

 

Annar nemandi sem hefur lagt mikið af mörkum í félagslífinu á námsárum sínum í Kvennó er:

Bjarki Fjalar Guðjónsson 3FS
                                                   

Gettu betur:

Gettu betur liðið stóð sig afburðavel í vetur og varð í öðru sæti í keppninni. Einn liðsmaður útskrifast í dag og er einnig beðinn um að koma hér upp og fá þakklætisvott fyrir sitt framlag í keppninni:

 

Sigurjón Ágústsson    3NF     

                                                 

 

Skólasókn:     

Sjö nýstúdentar voru með 100% raunmætingu í vetur. Þetta eru:

 

Andri Már Hannesson 3NB

Berglind Rut Bragadóttir 3NB

Rut Bjarnadóttir 3NC

Sólveig Ágústa Ágústsdóttir 3NF

 

Og svo einnig:

                        Anna Helga Kristjánsdóttir 3NF

                        Ísak Ólafsson 3NC

                                    og

                        Karítas Sól Kristjánsdóttir  3FC

 

En þessi þrjú síðastnefndu hafa verið með 100% raunmætingu allar annirnar sínar hér í Kvennó. Bið ég þau öll um að koma hingað og taka við viðurkenningu.

 

 

Verðlaun

Kennarar ykkar tilnefna á hverju ári nemendur sem þeim þykir hafa skarað fram úr í náminu.

 

Danska sendiráðið í Reykjavík veitir verðlaun fyrir áhuga á danskri tungu og menningu og þau hlýtur:

                                    Selma Sif Haraldsdóttir 3H

fyrir áhuga sinn, elju og stöðugar framfarir í dönsku.

 

Franska sendiráðið á Íslandi veitir einum nemanda af hverri braut verðlaun fyrir mjög góðan árangur í frönsku. Verðlaunin verða afhent við sérstaka athöfn í sendiherrabústaðnum við Skálholtsstíg í júní. Nemendurnir sem hljóta verðlaunin eru:

 

Sólrún Embla Þórðardóttir, stúdent af hugvísindabraut

Auður Helgadóttir, stúdent af félagsvísindabraut

Lísa María Friðriksdóttir, stúdent af náttúruvísindabraut

 

Allar þrjár sýndu þær frönskunni sérstakan áhuga og sinntu faginu vel, sem kemur fram í afar góðum árangri þeirra.

 

Verðlaun skólans í ensku hljóta:

 

Rebekka Rán Magnúsdóttir 3NC

 

Rebekka Rán er einstaklega duglegur og hæfileikaríkur nemandi sem hefur sýnt að vinnusemi skilar góðum árangri.  Þetta var ljóst í áfanganum "Skapandi skrif á ensku" þar sem Rebekka fær sjaldgæfa hæstu einkunn fyrir frábæra vinnu og góða smásögu sem hún skrifaði

                                                og

 

Alda Lín Auðunsdóttir 3FS

 

Alda Lín er áhugasamur nemandi sem er einbeitt og nákvæm í vinnubrögðum og hefur náð framúrskarandi árangri í ensku 

 

Verðlaun skólans fyrir framúrskarandi árangur í sálfræði og uppeldisfræði hlýtur einnig

 

                                    Alda Lín Auðunsdóttir 3FS

Hún hefur lokið öllum áföngum sem hún hefur tekið í þessum greinum með einkunninni 10.

Einnig hlýtur Alda Lín verðlaun úr Verðlaunasjóði fröken Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir frábæran árangur í sögu í val- og kjarnaáföngum.

og að lokum

 

fær Alda Lín líka verðlaun skólans fyrir framúrskarandi árangur í félagsgreinum en

hún hefur náð afburða árangri í kjarnagreinum félagsgreina á félagsvísindabraut.

 

 

Skólinn veitir einnig 

 

                                    Jónu Grétu Hilmarsdóttur 3FB

verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í félagsgreinum. Jóna Gréta hefur sýnt afburða dugnað í kjarna- og valáföngum á félagsvísindabraut. 

 

 

Á hverju ári eru veitt verðlaun úr Móðurmálssjóði fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Verðlaunin hlýtur að þessu sinni:

 

                                    Karítas Sól Kristjánsdóttir 3FC

 

fyrir dugnað, áhuga og góðan árangur í kjarna- og valáföngum í íslensku.

 

 

 

Þýska sendiráðið á Íslandi veitir tvenn verðlaun í þýsku og þau hljóta:

Máney Rós Jónatansdóttir 3.H

fyrir frábæran árangur í þýsku á hugvísindabraut

og

 

 

Berglind Rut Bragadóttir 3. NB

fyrir frábæran árangur í þýsku á náttúruvísindabraut.

 

Berglind Rut hlýtur einnig verðlaun skólans fyrir áhuga og einstakan árangur í líffræði eða einkunnina 10 í fjórum líffræðiáföngum

 

                                                og

 

Berglind Rut hlýtur líka verðlaun frá Efnafræðingafélaginu fyrir frábæran námsárangur í efnafræði

 

 

Verðlaun skólans fyrir efnafræði hlýtur einnig

 

                                    Kristín Erla Jónsdóttir 3NC

 

fyrir frábæran árangur, vinnusemi og áhuga.

                                   

           

Verðlaun skólans í efnafræði fyrir frábæran árangur, vinnusemi, áhuga og einstaka frammistöðu í aðstoðarkennslu í 1. bekk hlýtur

                                                                                               

                                    Ísak Ólafsson 3NC

 

 

Ísak hlýtur einnig viðurkenningu Gámaþjónustunnar fyrir einstaklega mikinn áhuga og vel unnin störf í umhverfisráði.

 

 

Verðlaun skólans fyrir áhuga og góðan árangur í líffræði hlýtur einnig

                       

Auður E. Hildardóttir Eggertsdóttir  3NF

 

Hún er eini nemandinn sem hefur klárað alla líffræðiáfanga sem kenndir eru við skólann og hlotið ágætiseinkunn í þeim öllum.

 

 

Verðlaun skólans fyrir alhliða góðan árangur í raungreinum hlýtur:

 

                        Matthildur Fríða Gunnarsdóttir 3NA

 

 

 

Verðlaun skólans fyrir góðan námsárangur í eðlisfræði hljóta

                                   

Trúmann Harðarson 3NA

                                    og

 

                        Sigurjón Ágústsson 3NF

 

                                                

 

Íslenska stærðfræðafélagið veitir að þessu sinni tvenn verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði og þau hljóta:

 

Sigurjón Ágústsson 3NF                    

                       

                                    og

                       

                        Hjalti Guðjónsson  3NC

 

Kvennaskólinn veitir einnig þrenn verðlaun fyrir frábæran árangur í stærðfræði og þau hljóta:

                         Aisha Regína Ögmundsdóttir 3NÞ

                        Jóhann Davíð Ólafsson  3NB    og

                        Yrsa Ásgeirsdóttir  3NB

 

Háskólinn í Reykjavík veitir sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Verðlaunin er veitt nemanda sem sannað hefur getu sína í raungreinum bæði með með vali á krefjandi námskeiðum (þar með talið á 3. hæfniþrepi) og með framúrskarandi árangri. Um er að ræða vegleg bókaverðlaun, auk þess sem verðlaunahafar sem kjósa að hefja nám við Háskólann í Reykjavík, fá niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi. Verðlaunin hlýtur að þessu sinni:

                                    Sigurjón Ágústsson 3NF

 

 

Á öllum brautum í nýja kerfinu er nú kjarnaáfangi sem nefnist lokaverkefni. Markmiðið er að nemendur takist á við metnaðarfullt lokaverkefni sem krefst sjálfstæðis og vandaðra vinnubragða og er góður undirbúningur undir frekara nám.

Verðlaunasjóður dr. Guðrúnar P. Helgadóttur veitir verðlaun fyrir besta lokaverkefnið „Stúdentspennann 2018“.  Hann hlýtur að þessu sinni:

 

Sigurjón Ágústsson 3NF

 

Sigurjón  fær viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni. Verkefnið ber heitið Út fyrir endimörk alheimsins og er þar áhugaverðri spurningu svarað, hvort og hvernig Íslendingur geti orðið geimfari. Sigurjón leitaði víða fanga enda eru heimildirnar fjölbreyttar auk þess sem vel er unnið úr þeim og skipulega. Verkefnið er frumlegt og textinn einstaklega góður, lipur og skemmtilegur.

 

Menntaverðlaun Háskóla Íslands eru veitt nemanda sem hefur skarað fram úr á skólagöngu sinni. Nemandinn þarf að hafa sýnt framúrskarandi árangur á stúdentsprófi auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta og átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans. Þessi verðlaun hlýtur

 

                                                Marta Carrasco  3NF

 

Marta er afburðanámsmaður, keppnismanneskja í fremstu röð á heimsvísu í samkvæmisdansi og hefur unnið ötullega í umhverfisráði skólans undanfarnar annir. Marta fær vegleg bókarverðlaun og fær styrk sem nemur upphæð skráningargjalds HÍ fyrsta skólaárið kjósi hún að hefja þar nám. Hún er því miður ekki viðstödd í dag enda er hún erlendis að keppa í dansi.

                                               

Skólinn vill einnig veita Mörtu viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni. Hún fjallar þar um mikilvægt málefni en verkefnið ber heitið Áhrif loftslagsbreytinga á dýrategundir norðurslóða. Höfundur verkefnisins vinnur einstaklega vel og skipulega úr efninu, heimildaúrvinnsla er til fyrirmyndar og mikið magn upplýsinga er sett fram á skýran og skilmerkilegan hátt í góðum texta. 

 

 

Verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík, fyrir hæstu meðaleinkunn og bestan heildarárangur á stúdentsprófi  vorið 2018, fyrstu ágætiseinkunn  hlýtur

 

                        Berglind Rut Bragadóttir með meðaleinkunnina 9,79        

 

Berglindi Ósk mun jafnframt veitast sá heiður að bera blómakrans að styttu Jóns Sigurðssonar fyrir forseta Íslands við morgunathöfna á Austurvelli þann 17. júní.

 

Ingibjörg Guðmundsdóttir

Það hefur verið til siðs í Kvennaskólanum alla tíð að láta mála portrett af fráfarandi forstöðukonum áður fyrr og skólameisturum síðustu árin. Því á skólinn merkilegt safn portreta af Þóru Melsteð, Ingibjörgu H. Bjarnason, Ragnheiði Jónsdóttur, Guðrúnu Pálínu Helgadóttur og Aðalsteini Eiríkssyni. Nú bætist Ingibjörg Guðmundsdóttir, sem  lét af störfum fyrir tveimur og hálfu ári, í hópinn. Vil ég biðja hana um að koma upp á svið þar sem nýmáluð mynd Dagbjartar Drífu Thorlacius verður afhjúpuð.

 

Skólaslit

Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur, kæru nýstúdentar, nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð – háa sem lága.

Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu.

 Maístjarnan
, ljóðabókaverðlaun á vegum Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafn Íslands, voru afhent í fyrsta sinni á degi ljóðsins þann 18. maí á síðasta ári. Verðlaunahafinn, Sigurður Pálsson, flutti ávarp  af því tilefni.

Ég ætla að leyfa mér að grípa niður í frábæran texta skáldsins þar sem það fjallar um eðli ljóðlistarinnar.

 

Ljóðlistin er innri rödd bókmenntanna. Rödd ljóðsins er rödd mennskunnar sem aldrei gefst upp í heimi sem böðlast áfram. Rödd friðar í ofbeldisdýrkandi heimi. Rödd mannréttinda og jöfnuðar í heimi þar sem átta menn eiga jafnmikil auðæfi og 50% af mannkyninu. Rödd frelsis og lýðræðis í heimi sem er dauðþreyttur á misnotkun á hugtökunum frelsi og lýðræði. Rödd ljóðsins vinnur gegn ofstopafullri einsleitni í notkun tungumálsins, hún býr yfir margræðni og blæbrigðum, býr til hugrenningatengsl, tilfinningatengsl, allan fínvefnað tungumálsins. En umfram allt er rödd ljóðsins hin heilaga innri rödd hvers og eins, röddin sem gerir okkur að einstaklingum í samfélagi annarra.

Ásdís Ingólfsdóttir kennari við Kvennaskólann les nú sjálfvalið ljóð úr óútgefinni ljóðabók sinni .... en hún var einmitt nemandi Sigurðar heitins í ljóðlist við Háskóla Íslands.

 

Ágætu nýstúdentar.

Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð – leggið alúð við móðurmálið ykkar og þá hæfileika sem ykkur eru í blóð bornir.

 

Loks vil ég þakka samstarfsfólki mínu fyrir vel unnin störf á önninni og undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðar okkar í dag.

 

 

 

15. Ágætu gestir.

Nýstúdentum og aðstandendum þeirra, starfsfólki og öðrum gestum óska ég til hamingju með daginn og gleðilegs sumars.

Ég segi hér með skólanum slitið.

 

En áður en við yfirgefum salinn vil ég biðja alla um að rísa úr sætum og syngja saman Ísland ögrum skorið.

 

Nú ganga nýstúdentar úr salnum – en eftir 15 mínútur eða svo verða þeir kallaðir aftur inn til myndatöku.

 Til hamingju nýstúdentar!