Verðlaun Franska sendiráðsins

Franska sendiráðið veitir árlega verðlaun fyrir góðan árangur í frönsku á stúdentsprófi. Í stað þess að verðlaunahafar fái viðurkenningu við útskrift er þeim boðið í móttöku í franska sendiherrabústaðnum sem að þessu sinni var mánudaginn 11. júní. Þetta er ávallt skemmtilegur viðburður þar sem nemendur úr hinum ýmsu framhaldsskólum hittast ásamt kennurum sínum og fulltrúum sendiráðsins. Bryddað var upp á þeirri nýjung að gefa verðlaunahöfum táknræna gjöf, ekta franskt "béret" (alpahúfu) og auk þess ársaðild að Alliance française í Reykjavík. Sú aðild veitir aðgang að frönsku bóka- og kvikmyndasafni og afslátt á margvíslega franska menningarviðburði og er því hvatning til að efla enn frekar frönskukunnáttu verðlaunahafanna. 

Þrír nýstúdentar Kvennaskólans voru í þessum vaska hópi, þær Auður Helgadóttir, Lísa María Friðriksdóttir og Sólrún Embla Þórðardóttir. Þær voru allar vel að verðlaununum komnar, stóðu sig mjög vel í frönskunáminu og sýndu einstaklega mikinn áhuga á franskri tungu og menningu öll námsárin í Kvennaskólanum. 

Á myndunum má annars vega sjá hópinn sem mætti til móttökunnar ásamt sendiherranum, Graham Paul og hins vegar þær Lísu, Auði og Sólrúnu ásamt frönskukennurunum sínum, Jóhönnu Björk Guðjónsdóttur og Margréti Helgu Hjartardóttur.