Nemendur í Kalmarferð

Dagana 23. – 29. september sl. dvöldu 23 nemendur Kvennaskólans hjá framhaldsskólanemendum í Kalmar í Svíþjóð. Ferðin var liður í samstarfsverkefni milli Kvennaskólans og CIS-skólans þar sem fjallað er um sjálfbærni frá ýmsum hliðum og gerður samanburður á löndunum tveimur. Dagskráin var þéttskipuð, fjölbreytt, fróðleg en líka skemmtileg og stundum var brugðið á leik. M.a. var farið um Öland þar sem skoðuð var sementsverksmiðja sem leggur áherslu á að minnka CO2 mengun. Farið var í fuglamerkingastöð í Ottenby, skoðaðir elgir, farið í sjóferðasafn í Karlskrona þar sem m.a. var að finna kafbátasafn. Hápunktur ferðarinnar að margra mati var heimsókn í Äspö-laboratoriet þar sem verið er að rannsaka og prófa aðferðir til að ganga frá kjarnorkuúrgangi neðanjarðar.