Berlínarferð nemenda

Föstudaginn 28. september hélt 48 manna hópur þýskunemenda í áfanganum ÞÝSK 2BE05 ásamt kennurunum Elnu Katrínu Jónsdóttur, Ástu Emilsdóttur og Björgu Helgu Sigurðardóttur til Berlínar í náms- og menningarferð. Nemendur höfðu fyrir ferðina kynnt sér eitt og annað um Berlín og m.a. unnið kynningar um þekktustu staðina og hverfin. Farið var í bæði göngu- og rútuferð með íslenskum leiðsögumanni sem býr í Berlín. Skoðaðir voru margir merkir staðir í borginni. Má þar nefna dómkirkjuna, þinghúsið, Treptower-garðinn, Ólympíuleikvanginn, Holocaust minnismerkið og Gedenkstätte Berliner Mauer, sem er minningarstaður um Berlínarmúrinn, en þar hlýddu nemendur á fyrirlestur. Í frjálsum tíma áttu nemendur svo að heimsækja safn eða annan markverðan stað að eigin vali. Hluti hópsins fór á leik Hertha Berlin og Bayern München á Ólympíuleikvanginum og skemmti sér hið besta. Komið var heim síðdegis þriðjudaginn 2. október eftir vel heppnaða og fróðlega ferð.