36% nemenda með 98-100% mætingu

Nú er haustönninni að ljúka og prófatíð að baki. Við eigum því láni að fagna að nemendur eru yfirleitt mjög áhugasamir og metnaðarfullir um nám sitt. Því er brotthvarf lítið og langflestir ljúka stúdentsprófi á þremur árum. Þó þurfa sumir alltaf aðeins lengri tíma af margvíslegum ástæðum og eiga þess þá kost að brautskrást í desember, ef svo ber undir, eins og ágætur hópur mun gera þann 20. desember.

Hluti af skólamenningu Kvennaskólans eru góðar mætingar og við erum stolt að segja frá því að 220 nemendur, eða 36%, eru með 98-100% raunmætingu. Er það siður í skólanum að þeir sem fylla  þennan hóp fái senda sérstaka jólakveðju frá skólameistara. Til samanburðar var hlutfallið tæplega 28% í fyrra.

Þá er þess að geta að 52% nemenda skólans fá einingu fyrir mætingar, sem þýðir að þeir hafa mætt í 96-100% kennslustunda. Í fyrra var hlutfallið 42%.