Kvennaskólinn útnefndur Mannréttindaframhaldsskóli ársins

"Bréf til bjargar lífi" er stærsti árlegi viðburður Amnesty International á Íslandi og fór hann fram í lok síðasta árs.

Um er að ræða alþjóðlega herferð þar sem undir­skriftum er safnað vegna 10 áríð­andi mála fólks sem sætir mann­rétt­inda­brotum og þess krafist af stjórn­völdum að rétt­lætið nái fram að ganga. Að þessu sinni var safnað 76.901 undirskriftum hér á landi.

Söfnunin fór meðal annars fram í framhaldsskólum landsins og keppast framhaldskólar við að safna flestum undirskriftum.

Kvennaskólinn í Reykjavík bar sigur úr býtum í framhaldsskólakeppninni og hefur því hlotið titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins fyrir flestar undirskriftir.

Nemendur skólans söfnðuðu alls 2804 undirskriftum til stuðnings þolendum mannréttindabrota. Framhaldsskólinn á Laugum fór síðan með sigur af hólmi í flokknum "Fjöldi undirskrifta miðað við nemendafjölda" og hlaut því titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins í þeim flokki.

Á myndinni er góðgerðarnefnd Kvennaskólans sem annaðist framkvæmd söfnunarinnar. Frá vinstri: Eva Rut Reynisdóttir, Soffía Ólafsdóttir og Þórdís Lilja Ólafsdóttir.