Peysufatadagurinn 5. apríl

Hinn árlegi peysufatadagur Kvennaskólans í Reykjavík verður haldinn hátíðlegur föstudaginn 5. apríl. Að vanda munu nemendur á öðru ári klæða sig upp í íslenskan búning og skemmta sér og öðrum með þjóðlegum söng og dansi.  Aðaldagskráin hefst í Miðbæjarskólaportinu kl. 11.00.

Að þessu sinni verður þess minnst að í febrúar síðastliðinn voru liðin 100 ár frá stofnun Keðjunnar, nemendafélags skólans. Af því tilefni verður fyrrum formönnum þess boðið til samsætis síðar um daginn.

Velunnurum skólans er velkomið að fylgjast með dagskránni í porti Miðbæjarskólans.