Góðir gestir minnast 50 ára útskriftarafmælis

Í gær komu góðir gestir í heimsókn í Kvennaskólann. Þar voru á ferðinni skólasystur sem brautskráðust fyrir 50 árum síðan. Margar þeirra hafa haldið hópinn allan tímann og hittast reglulega. Það var kátt á hjalla í gamla skólahúsinu meðan á heimsókninni stóð. Fyrst fór fram stutt móttaka í plussstofunni áður en gengið var til kaffisamsætis þar sem boðið var upp á pönnukökur að góðum íslenskum sið. Hópurinn kom ekki tómhentur og færði skólanum peningagjöf sem er ætlað að renna í tækjasjóð skólans og kemur hún sannarlega í góðar þarfir.

Ein hinna knáu fyrrum Kvennaskólameyja, Sigurlín Hermannsdóttir, fór með eftirfarandi brag sem hún hafði samið í tilefni tímamótanna:

Við Tjörnina mörg tignarleg var bygging

teljast þar með kirkja og Glaumsins bær

og Kvennaskóli, er skyldi vera trygging

að skikkanlega siðuð yrði mær.

 

Þangar stefnt var þrettán ára meyjum

er þekktust lítt og hógværð ríkti fyrst.

Og hvort þær komu úr Árbæ eða Eyjum

una skyldu saman þar í vist.

 

Næsta magnað menningarsjokk fengum

margan þar við lærðum nýjan sið.

Sem vinnuhjú að húsabaki´inn gengum.

,,Hérna kennaranna þérum við.”

 

Í kjallara voru kenndar listir handa

kjaftagangurinn var ekkert smá.

Feimnismálum mánaðarlegs vanda

María gamla reddaði´ okkur þá.

 

Ef kennara ég ætti kannski að  nefna

koma upp í huga Nonni Mar,

Alfredo og Ingólfur og Hrefna

og Aðalsteinn svo rosa sætur var.

 

Löngum voru kennslupíslir kvaldar

knallstutt pilsin trufla suma þá.

Bækurnar á borðum voru faldar

ef bráðavandi í prófi herjaði´ á.

 

Ekki skyldu meyjar meikið brúka

mörgum illa gekk að hlýða því.

Undir tröppum Æskó vildu húka

þar oft sást reykur frímínútum í.

 

Kvennó-stúlkum strákaskortur leiddist

þótt stundum kynnu ráð við ýmsum þrám.

Vangadansi á böllum Vassi reiddist,

og vildi setja bann á allt slíkt klám.

 

Í mjóbakið ég megawatta straum fæ

er minnist þess sem peysufatamey

skellti´ ég mér í skrúðanum í Glaumbæ,

um skírteini bað dyravörður ei.

 

Ylja minningarnar oft og tíðan

endalausar, eins og vera ber.

Fimm þótt tugir ára séu síðan

þeir svífa rétt sem örskot fram hjá mér.