Nýnemaferðir

Dagana 3. og 4. september stóð skólinn fyrir hinum árlegu nýnemaferðum. Eins og undanfarin ár var ferðinni  heitið að Laugarvatni þar sem nemendur dvöldu við störf og leik í einn dag. Fyrri daginn fóru saman bekkirnir af náttúruvísindabraut og hinn seinni nemendur af félagsvísindabraut og hugvísindabraut, alls 240 manns.

Tilgangurinn er að gefa nemendum tækifæri til að kynnast betur í upphafi skólaárs; að efla kynnin bæði innan hvers bekkjar og á milli bekkja.

Dagskráin var meðal annars í því fólgin að farið er í ýmsa hópeflisleiki í upphafi dags. Að því búnu fer fram bekkjakeppni þar sem sambekkingar þurfa að leysa af hendi ýmis verkefni sem gefin eru stig fyrir. Því næst er farið í heimsókn í Menntaskólann að Laugarvatni. Þar fá nemendur síðdegishressingu auk þess sem þeim er sýndur skólinn. Að því búnu eru grillaðar pylsur og bulsur ofan í mannskapinn. Loks fer fram kvöldvaka í íþróttahúsinu þar sem meðal annars stigin fyrir keppni dagsins eru eru gerð heyrinkunnug.