Gerður Kristný Guðjónsdóttir, oftast aðeins Gerður Kristný er höfundur ljóðs vikunnar.

Hún er fædd í Reykjavík 10. júní 1970. Gerður lauk B.A.-prófi í frönsku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1992 og stundaði einnig nám í hagnýtri fjölmiðlun 1992-1993. Hún var ritstjóri Mannlífs 1998 til 2004 en hefur síðan haft ritstörf að aðalatvinnu. Gerður Kristný hefur sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, barnabækur og fleira og hafa bækur hennar hlotið ýmsar viðurkenningar. 

 

Maðurinn með ljáinn

Hann kemur mér
Í opna skjöldu
Þar sem hann blasir við
á gamalli ljósmynd

Það er ekki blikandi ljárinn
sem kemur upp um hann
heldur hnausþykk gleraugun

Það hlaut að vera
að hann sæi illa
eins ómannglöggur og
hann getur verið