Alþjóðleg umferðaröryggisvika Sameinuðu þjóðanna

Nemendur í 1. bekk í lífsleikni í Kvennaskólanum tóku þátt í alþjóðlegri umferðaröryggisviku með heimsókn í Forvarnarhúsið.

Í þessari viku er haldin alþjóðleg umferðaröryggisvika undir merkjum Sameinuðu þjóðanna.  Þema vikunnar er í höndum Umferðarstofu og Umferðarráðs og þeirra félagasamtaka sem aðild eiga að því.  Í samstarfi við Umferðarstofu stendur yfir forvarnarsýning í Forvarnarhúsinu.  Í Forvarnarhúsinu er ýmislegt sem getur varpað skýrara ljósi á ýmsa öryggisþætti í umferðinni.  Má í því sambandi nefna bæði veltibíl og bílbeltasleða sem fær fólk til að upplifa, án hættu, gildi bílbelta.  Einnig er þar ökuhermir þar sem hægt er að upplifa ýmsar mismunandi aðstæður sem eru í raun hluti af daglegri umferð. Má þar nefna hálku, myrkur, rigningu og þoku. Einnig er þar hægt að aka í mismunandi umferð, þar á meðal á hraðbraut, hægt er að meta bil milli bíla og hvernig er að aka við tilteknar aðstæður.  Loks er hægt að prófa að aka með herminum sem gerir viðkomandi “ölvaðan”. 

Myndin sýnir nemendur í 1NÞ ásamt kennara sínum Ragnhildi Guðjónsdóttur.