Skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík

Kvennaskólanum í Reykjavík var slitið í 133. sinn við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju 25. maí síðastliðinn. 144 stúdentar voru brautskráðir að þessu sinni en það er stærsti útskriftarárgangur skólans til þessa. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi hlaut Nanna Einarsdóttir 9,58 og hún hlaut einnig hæstu meðaleinkunn á bekkjarprófi sem nokkru sinni hefur náðst við skólann 10.0. Aðrir nýstúdentar sem útskrifuðust með ágætiseinkunn á stúdentsprófi eru Díana Guðmundsdóttir, Halldóra Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Birgisdóttir, Kristín Lilja Ragnarsdóttir og Steinar Birgisson.
Verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur í ýmsum greinum á stúdentsprófi. Aðalverðlaun skólans, verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík, fyrir hæstu meðaleinkunn og besta heildarárangur á stúdentsprófi 2007, hlaut Nanna Einarsdóttir. Hún hlaut einnig verðlaun Íslenska stærðfræðifélagsins fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði og verðlaun skólans í eðlisfræði og þýsku. Halldóra Guðmundsdóttir hlaut Stúdentspennann 2007 úr verðlaunasjóði dr. Guðrúnar P. Helgadóttur fyrir bestu stúdentsritgerðina. 65 ára útskriftarárgangur veitti söguverðlaun til minningar um fröken Ragnheiði Jónsdóttur og þau hlaut Esther Ösp Valdimarsdóttir. Fjölmörg önnur verðlaun voru veitt.
Kór Kvennaskólans söng nokkur lög við athöfnina og nýstúdentarnir Margrét Soffía Einarsdóttir fiðluleikari, Steinar Birgisson píanóleikari og Þórður Guðmundur Hermannsson sellóleikari léku tangó eftir Astor Piazzola. Ávarp nýstúdenta flutti Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir og Björg Einarsdóttir og Messíana Tómasdóttir töluðu fyrir hönd útskriftarárganga. Messíana færði skólanum gjöf fyrir hönd 50 ára útskriftarárgangs. Gjöfin var andvirði fullbúins herbergis í heimavist fyrir skólastúlkur í Rackoko í Uganda sem gefið var í nafni Kvennaskólans.

Hægt er að ná í stærri útgáfu af mynd af stúdentahópnum með þvi að smella hér (myndin er 5,4MB, þeim sem eru með Windows er ráðlagt að hægri-smella og velja "Save Target As..." og vista á tölvunni, Makkanotendur nota slaufutakka í sama tilgangi).