Einkunnaafhending 2007

Í morgun fór fram í Uppsölum einkunnaafhending Kvennaskólans fyrir skólaárið 2006-2007 sem er 133. starfsár skólans.
Oddný Hafberg skólameistari hélt stutta tölu þar sem fram kom að í vetur hefðu 570 nemendur verið við nám í skólanum og stúdentar sem útskrifast á föstudag verða 144 talsins.
Oddný greindi líka frá því að 25 nemendur hefðu hlotið 1. ágætiseinkunn (9 eða meira í meðaleinkunn) og skiptist það þannig að 4 þeirra koma úr 1. bekk, 3 úr 2. bekk, 4 úr 3. bekk og 14 úr 4. bekk.
Með hæstu meðaleinkunn í 1. bekk var Ólafur Páll Geirsson 1NF með 9.3, í 2. bekk var María Lind Sigurðardóttir 2NÞ hæst með 9.6, í 3. bekk var Sigurlaug Friðþjófsdóttir 3FU hæst með 9.7 og dúx skólans er Nanna Einarsdóttir 4NS með meðaleinkunnina 10.0 á 4. bekkjarprófi!
Að lokum greindi Oddný frá því að 8 nemendur hefðu verið með 100% raunskólasókn í vetur og sá bekkur sem hefði mætt best væri 1NA (með rúmlega 95% raunmætingu að meðaltali) og að launum er 1NA boðið í pizzuveislu til skólameistara eftir nokkra daga.