Sól síðdegis eftir Ingunni Snædal er ljóð vikunnar

Ingunn Snædal er fædd á Egilsstöðum 10. ágúst 1971 og ólst upp á Jökuldal. Hún lauk B.ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1996 og lagði stund á írskunám við háskólann í Galway á Írlandi 1996-97. Árið 2006 hóf hún nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Ingunn bjó í Írlandi frá 1996-98, á Costa Rica og í Mexíkó 1998-99, á Spáni 2001-02 og sumarlangt í Danmörku 1998. Ingunn hefur unnið hin ýmsu störf  meðal annars sem kennari. Hún býr á Fljótsdalshéraði.

 

sól síðdegis

þegar ég reis upp

úr sólbaðinu

brá skugganum mínum

heldur betur í brún

 

meðan ég lá

hafði svarblá tröllkona

með djúpa skál í fanginu

og hvítar skýjafléttur

risið upp

beint fyrir framan pallinn

 

ber að ofan

með heitar geirvörtur

hljóp ég í útbreiddan

faðm hennar

(Komin til að vera, nóttin  2009)