Góðgerðardagur Kvennó vel heppnaður

Góðgerðardagur Kvennaskólans var haldinn í annað sinn þriðjudaginn 8. mars síðastliðinn og tókst vel til. Allir 24 bekkir skólans unnu að ýmis konar samfélagsverkefnum og létu gott af sér leiða. Á meðal þeirra fjölbreyttu verkefna sem krakkarnir tóku sér fyrir hendur má nefna kökubasar til styrktar Kvennaathvarfinu ásamt fræðslu um starfsemi athvarfsins og heimilisofbeldi, hóp nemenda sem fór í grunnskóla í vesturbænum og hélt fyrirlestur um Blátt áfram og kynferðisofbeldi gegn börnum, einn bekkur tók þátt í göngu á vegum UN Women (áður Unifem) í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna og þá hljóp 3NS nær 100 kílómetra fyrir málefnið Bætum brjóst.
Tilgangur verkefnisins er margþættur. Það gefur nemendum tækifæri á að gefa af sér til þjóðfélagsins sem og vekja jákvæða athygli á ungmennum og því góða starfi sem þau geta unnið. Auk þess er tilgangurinn að kynna mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar og sjálfboðastarfa almennt.