Kvennó vann Boxið!

Vaskur hópur úr 3 NA gerði sér lítið fyrir og sigraði Boxið - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna sem haldin er árlega af Samtökum iðnaðarins, Háskólanum í Reykjavík og Sambandi íslenskra framhaldsskólanema. Keppnin fór fram í HR á laugardaginn 9.nóvember og stóð frá kl. 10:00 til 16:00. Þau leystu með glæsibrag 7 þrautir og var ýmislegt metið, hraði, frumleiki, samvinna, gleði og hugvitssemi. Liðin fóru í gegnum þrautabraut sem er sett saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna HR. Alls tóku 18 lið þátt í forkeppni og komust átta efstu liðin áfram. Liðin sem kepptu til úrslita á laugardaginn voru: Menntaskólinn í Reykjavík, Verslunarskóli Íslands, Tækniskólinn, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Flensborgarskóli, Kvennaskólinn og Menntaskólinn við Hamrahlíð. Þess má geta að í ár voru stelpur í úrslitakeppninni sjö talsins en voru aðeins tvær í fyrra. Í Boxinu þurfa keppendurnir að geta unnið hratt og vel að sameiginlegu markmiði og sýna fram á ákveðið hug- og verkvit auk þess sem liðsheild skiptir miklu máli. Keppni af þessu tagi er því góð leið til að gera margvíslegum hæfileikum hátt undir höfði. Við mat á lausnum réð meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki. Liðin þurftu til dæmis að útbúa lítið fley sem gat flotið á vatni, leysa forritunarþrautir, búa til píanó úr álpappír með aðstoð tölvuforrits og setja saman ýmsa hluti. Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna í ár eru Ístak, Marel, Skema, Járnsmiðja Óðins, Promens, TM Software og Marorka. Liðið fékk líka sérstök verðlaun frá Promens fyrir sérstaklega góða frammistöðu við lausn á þeirra þraut.

Við erum ógurlega stolt af þeim Ólöfu, Hrönn, Daníel, Heiðari og Rögnvaldi og óskum þeim innilega til hamingju með verðskuldaðan sigur og ipadinn fína sem þau fengu.  

Öll keppnin var tekin upp af RUV og eltu hraðfréttamennirnir Helgi Hrafn og Fannar öll liðin á röndum og tóku viðtöl. Þáttur um keppnina verður sýndur á RÚV í janúar.

Myndir úr keppninni má sjá hér: http://www.facebook.com/boxid

Meira um boxið má sjá hér: http://boxid.ru.is/

Frétt á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/10/kvenno_vann_boxid/

Frétt af heimasíðu Háskólans í Reykjavík http://www.ru.is/haskolinn/frettir/nr/29936