Ljóð vikunnar eru eftir Birgittu Jónsdóttur.

Hún er fædd 17. apríl 1967 í Reykjavík. Birgitta lauk grunnskólaprófi frá Núpi í Dýrafirði 1983. Sjálfmenntuð í vefhönnun og vefþróun, grafískri hönnun og umbroti. Birgitta er fjöllistakona, rithöfundur, ljóðskáld, þýðandi og myndlistarmaður. Hefur starfað meðfram því sem grafískur hönnuður og blaðamaður og sem pistlahöfundur hjá íslenskum jafnt sem erlendum tímaritum og nettímaritum. Hefur haldið fjölda málverkasýninga og gefið út yfir tuttugu ljóðabækur á ensku og íslensku frá 1989. Frumkvöðull í vinnslu ljóða og lista á internetinu og í skapandi útfærslu í netheimum í árdaga þess. Formaður Hreyfingarinnar 2011-2012. Alþingismaður síðan 2009 (fyrir Borgarahreyfinguna síðar Hreyfinguna).


Augu

Sum augu eru
blá af von.

Önnur flökta
sem fuglar
í búrum.

Mörg eru
litlaus og tóm
eða svört af sorg.

(Frostdinglar, 1989)