Frönskukeppni framhaldsskólanema: Nemandi úr Kvennaskólanum hreppti annað sæti

Á laugardaginn var, 19. mars, var haldin keppnin Allons en France í Borgarbókasafninu í Grófarhúsinu. Keppni þessi, sem skipulögð er af sendiráði Frakklands í Reykjavík og Félagi frönskukennara á Íslandi, er haldin árlega og undanfarin ár tengd viku franskrar tungu í mars. 1. verðlaun eru vegleg því vinningshafinn fær tíu daga boðsferð til Frakklands þar sem hann slæst í för með yfir hundrað öðrum nemendum í frönsku sem erlendu máli.  Þemað í ár var ,,Les sports et la francophonie", eða íþróttir og hinn frönskumælandi heimur. Nemendur semja efni sem þeir svo flytja í keppninni. Þeir hafa frjálsar hendur um framsetningu og tekur þriggja manna dómnefnd tillit til málnotkunar, framburðar, frumlegheit og fl. Bryndís Torfadóttir úr 3FSU tók þátt í keppninni fyrir hönd Kvennaskólans og stóð sig afar vel því hún hreppti annað sætið fyrir flutning á texta um tengsl sín við hina unga íþrótt parkour. Í verðlaun hlaut hún úttekt hjá Eymundsson og geisladisk frá sendiráðinu. Við óskum Bryndísi til hamingju með árangurinn.

Bryndís Torfadóttir ásamt Jóhönnu Björk Guðjónsdóttur frönskukennara Kvennaskólans.