Kórinn í Madrid

Kór Kvennaskólans verður í söngferð í Madrid dagana 2.-10. júní. Í ferðinni taka þátt 27 kórfélagar, kórstjóri, Margrét Helga Hjartardóttir og fararstjóri, Elva Björt Pálsdóttir sem báðar eru kennarar við skólann. Kórinn mun dvelja í hjarta borgarinnar og vera duglegur við að syngja fyrir borgarbúa og gesti Madridar á torgum og í almenningsgörðum. Hápunktur ferðarinnar verða tónleikar í kirkjunni “San Jerónimo el Real”, miðvikudagskvöldið 6. júní. Kórinn var ennfremur beðinn um að syngja íslensk og norræn lög fyrir framan norrænan bás á árlegri bókastefnu í Retiro-garðinum í Madrid. Einnig mun kórinn syngja í skólum og fyrirtækjum í borginni. Kórfélagar munu nota tækifærið til að kynnast menningu Spánar, t.d. með safnferðum og dagsferð til nágrannaborgarinnar Toledo undir leiðsögn Kristins R. Ólafssonar sem hefur veitt kórnum mikla hjálp við undirbúning ferðarinnar. Kórinn mun setja inn fréttir jafnóðum á bloggsíðuna sína http://www.korkvennaskolans.bloggar.is/ ef aðstæður leyfa.