Njálu- og Þórsmerkurferð 3ja bekkjar

Þann 2. september sl. fóru 3ju-bekkingar, ásamt fjórum kennurum, í langþráða Njálu- og Þórsmerkurferð. Náttúruöflin höfðu áður sett strik í ferðaplön þessara nemenda og var ferðin nokkurs konar uppbót fyrir það.  Þegar nemendur voru í 1. bekk  kom t.d.  vatnsveður í veg fyrir að þeir kæmust í Bása og gosið í Eyjafjallajökli  frestaði Njáluferð  sl. vor.  Í þetta sinn stríddu náttúruöflin nemendum  bara lítillega þar sem erfiðlega  gekk að komast yfir Hvanná, sem var bæði grafin og full af eðju.  Það tókst þó vel að lokum, þökk sé flinkum rútubílstjórum en töfin kom niður á dagskrá ferðarinnar  sem dróst nokkuð á langinn. 
  
Veðrið lék við ferðalanga og fannst flestum merkilegt að  stoppa við  Gígjökul og „fyrrverandi lón“  og sjá hvernig askan lá eins og þykkt teppi yfir öllu.  Það var líka gaman að grilla, snæða og slaka á  í Básum og virða fyrir sér náttúrufegurðina þar.  Skálavörðurinn hrósaði hópnum sérstaklegaf fyrir góða umgengni.   Úr Þórsmörk var haldið að Hlíðarenda í  Fljótshlíð og síðan á fleiri merka sögustaði úr Njálu.   Þórsmerkur- og Njáluferð  3ju bekkinga tókst því í alla staði vel og voru flestir mátulega þreyttir en sælir þegar rúturnar renndu sér í hlað við Kvennaskólann.      

Sjá myndir hér