Berlínarferð Kvennaskólanemenda

Föstudaginn 1. mars hélt hópur nemenda í áfanganum ÞÝS 2L05 í ferð til Berlínar ásamt kennurum áfangans, Björgu Helgu og Elnu Katrínu. Í hópnum voru 20 nemendur í 3. bekk. Nemendur höfðu fyrir ferðina kynnt sér eitt og annað um Berlín og m.a. unnið kynningar um þekktustu staðina. Gist var rétt við Alexanderplatz, í hjarta gömlu Austur-Berlínar.  Nemendur voru duglegir að nota þýskukunnáttu sína.

Dagskráin hófst á rúmlega fjögurra klukkutíma skoðunarferð með rútu um austur- og vesturhluta borgarinnar með íslenskum leiðsögumanni og var m.a. farið inn á Ólympíuleikvanginn. Sami leiðsögumaður fór einnig með hópinn í mjög fróðlega gönguferð um hverfið Berlin Mitte, þar sem gengið var um Safnaeyjuna og breiðgötuna Unter den Linden. Hópurinn heimsótti DDR-safnið, skoðaði þinghúsið og minningarsvæði um Berlínarmúrinn. Einnig var kíkt inn í Humboldt háskólann auk þess sem sumir fóru á handboltaleik með Füchse Berlin á meðan aðrir fóru á flóamarkað eða í dýragarðinn, svo eitthvað sé nefnt.  Ferðin heppnaðist ljómandi vel og var framkoma nemenda til fyrirmyndar. Komið var heim aðfararnótt þriðjudagsins 5. mars.