Ljóð vikunnar er eftir Jakobínu Sigurðardóttur, rithöfund (1918-1994).

Hún fæddist í Hælavík í Norður Ísafjarðarsýslu. Á unglingsárum flutti hún til Reykjavíkur, réðst í vist en stundaði nám í Ingimarsskóla og Kennaraskólanum á kvöldin. Seinna flutti hún að Garði í Mývatnssveit og vann við bústörf til æviloka. Jakobína vakti fyrst athygli fyrir ljóð sín en kjölfarið fylgdu ævintýri, kvæða- og smásagnasöfn. Fyrsta skáldsaga hennar Dægurvísa (1965) var framlag Íslands til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1966.

Í vökinni
Sé ég og sé ég -
sigla skip frá landi.
Blágullnar bárur
bylta hvítum sandi.
Æskan og útþráin
elska höfin blá.
Óskirnar - óskirnar
andrúm meira þrá.

Heyri ég - heyri ég
hljóma fiðlur allar.
Laugast ljósdöggvum
laut og klettastallar.
Seiddu þá, sungu þá
sólbjört fyrirheit,
heilluðu hugi
í hamingjuleit.

Jakobína Sigurðardóttir,

Kvæði, 1983