Kvenskælingar í Skotlandi

Laugardaginn 5. mars lögðu 20 nemendur og 3 kennarar af stað í námsferð til Skotlands. Námskeiðið er samvinnuverkefni ensku-, félagsgreina- og sögukennara. Var ferðin hluti af náminu en nemendur höfðu fyrir ferðina fengið fræðslu um sögu Skotlands, stjórnskipan, tungumálið og menningu.

Kvenskælingar ásamt kennurum fyrir utan þinghúsið í Edinborg.


Sunnudaginn 6. mars  fóru nemendur í vettvangsheimsóknir til staða innan Glasgow sem þeir höfðu valið að kynna sér til hlítar og enduðu daginn á heimsókn í Kelvingrove safnið, sem er eitt stærsta og glæsilegasta safnið í Glasgow.

Á mánudaginn hélt hópurinn í dagsferð til Stirling og Edinborgar. Stirlingkastali var heimsóttur og skoðaður. Þarnæst lá leiðin til Edinborgar. Mary King‘s Close var skoðað, sem er gata frá fyrri tímum sem hefur varðveist heilleg undir Ráðhúsinu í Edinborg sem byggt var ofan á götuna og lokaði henni. 

Því næst var haldið til þinghússins, sem er nýtískubygging sem stendur við Holyrood höllina þar sem breska konungsfjölskyldan dvelur gjarnan í fríum sínum.  Að lokum var haldið til Edinborgarkastala og farið í ratleik og þvínæst spókuðu nemendur og kennarar sig á Royal Mile þar til haldið var til baka í náttstað.


Á þriðjudeginum, 8. mars, baráttudegi kvenna, heimsótti hópurinn Bannerman High, hélt kynningu á Íslandi og skólanum sínum og fékk kynningu frá skosku nemendunum um Skotland.  Hélt hópurinn síðan heimleiðis miðvikudaginn 9. mars, upplýstur, sæll og glaður eftir vel heppnaða námsferð til Skotlands.