Æfingabúðir Kórs Kvennaskólans í Skálholti

Kór Kvennaskólans í Reykjavík var í æfingabúðum í Sumarbúðum Skálholts um síðustu helgi, frá 2.- 4. nóvember. Kórinn telur nú um 20 félaga en af þeim komust 13 með í ferðina og æfðu af miklum móð. Liður í æfingunum var gönguferð yfir í Skálholtskirkju þar sem kórinn söng fjölmörg lög í frábærum hljómburði kirkjunnar. Einnig tóku nokkrir félagar þátt í hátíðlegri bænastund á laugardeginum og messu á sunnudagsmorgni. Megináherslan var lögð á æfingu verka fyrir aðventutónleika kórsins sem haldnir verða í Fríkirkjunni á fyrsta sunnudegi í aðventu, 2. desember kl. 20.00. Tónleikarnir verða nánar auglýstir síðar.