Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur

Dags íslenskrar tungu, 16. nóvember, var minnst í Kvennaskólanum eins og víða annars staðar. Í þriðju kennslustund dagsins söng Kór Kvennaskólans á nokkrum stöðum í byggingum Kvennaskólans fyrir nemendur og starfsfólk. Sungið var íslenskuljóð Þórarins Eldjárns við lag Atla Heimis Sveinssonar ásamt þremur lögum við kvæði afmælisbarnsins, Jónasar Hallgrímssonar. Andri Björn Róbertsson, nemandi í 3. bekk, söng einsöng í laginu Ég bið að heilsa við frábærar undirtektir viðstaddra en lagið er Kvenskælingum einkar kært þar sem það er alltaf sungið á Peysufatadaginn. Á meðfylgjandi myndum má sjá að jafnan var þröng á þingi þegar áheyrendur gægðust út úr skólastofum til að hlýða á sönginn. 1. Mynd: Margrét Helga stjórnaði og Hélène Jadot lék á þverflautu.


Áhorfendur á efstu hæð í aðalbyggingunni


Á ganginum í nýbyggingunni


Andri Björn Róbertsson söng einsöng