Heimsókn á Þjóðminjasafnið

Föstudaginn 24. nóvember fór 3NÞ og NL á Þjóðminjasafnið. Nemendur nutu þess að sjá og upplifa safnið og eiga örugglega oft eftir að gera sér ferð þangað.

Á safninu hittu nemendur helsta fræðimann fatlaðra í Bretlandi Dr. Tom Shakespeare sem gaf sig á tal við nemendur og hvatti þá til að meta sögu og menningu þjóðar okkar. (Sjá mynd hér fyrir neðan.)

Ein forsenda lifandi íslenskrar menningar er að landsmenn glími sífellt við spurninguna: Hvernig verður þjóð til? Hvað getum við lært af gengnum kynslóðum? Þjóðminjasafn Íslands gegnir veigamiklu hlutverki í þessu sambandi.


Ásamt bókmenntaarfinum og sögunni auðveldar safnið okkur að skilja hver við erum og hvaðan við komum. Þjóðminjasafnið varðveitir minjar sem veita okkur innsýn í menningarsögu okkar og hvetja okkur sífellt til að skoða fortíð okkar, nútíð og framtíð. Gripir safnsins eru settir í sögulegt samhengi sem miðlar upplýsingum um valda þætti sögunnar út frá nýjustu rannsóknum.

Safnhúsið við Suðurgötu var endurbyggt á árunum 1999 til 2004. Jafnframt því var grunnsýning Þjóðminjasafnsins endursköpuð. Breytingin fólst í nýjum áherslum við uppbyggingu sýningarinnar, framsetningu muna safnsins og kynningu á þeim. Nýjustu sýningartækni er beitt til að miðla sögu þjóðarinnar á sem áhrifaríkastan hátt. Í öllu því starfi er byggt á rannsóknum og forvörslu minja sem tryggja að Þjóðminjasafnið varðveitir sameiginlegan menningararf okkar vel fyrir komandi kynslóðir.

Hin nýja grunnsýning um menningu og sögu á Íslandi í 1200 ár var opnuð í nýja safninu þann 1. september 2004. Á sýningunni geta gestir sett sig í spor Íslendinga liðinna alda og áratuga og borið þá og aðstæður þeirra saman við samtímann.

Hægt er að sjá fleiri myndir frá heimsókninni á myndasíðu www.kvenno.is.