Í þessari viku birtist brot úr jólakvæði eftir Jón (Jónsson) úr Vör (1917-2000).

Hann fæddist á Patreksfirði 21. Janúar 1917 og ólst þar upp við kröpp kjör. Hann stundaði nám við Héraðsskólann á Núpi, Námsflokka Reykjavíkur og lýðháskóla í Svíþjóð og Sviss. Jón starfaði sem ritstjóri, fornbókasali og var frumkvöðull að stofnun bókasafns Kópavogs og var fyrsti forstöðumaður þess. Einna þekktastur er Jón fyrir ljóðabókina Þorpið sem kom út 1946. Hún er fyrsta ljóðabókin sem kom út hér á landi þar sem ljóðin voru öll í frjálsu formi. Ljóð Jóns hafa verið þýdd á Norðurlandamál.

Brot úr jólakvæði

Ég lítið barn svo langt í burtu fór,
-og ljótt er margt sem fyrir augu ber.
Ég rata ekki heim til hjarta míns,
að halda jólin, móðir, enn hjá þér.

Og hvar er rótt í heimi stríðs og blóðs?
Er hægt að lesa vers í slíkum gný?
-Á litlu kerti er ljós, sem aldrei deyr,
mín ljúfa móðir vakir yfir því.

Jón úr Vör