Útskrift stúdenta og skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík

Föstudaginn 30. maí voru 136 stúdentar útskrifaðir frá Kvennaskólanum við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju. Kór Kvennaskólans söng, Hekla Finnsdóttir nýstúdent lék á fiðlu, Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson flutti ávarp fyrir
hönd nýstúdenta og Daníel Adam Pilkington söng við eigin gítarleik. Fjölmargir nemendur hlutu verðlaun fyrir góðan námsárangur í ýmsum greinum ásamt því sem nokkrir nemendur hlutu viðurkenningu fyrir framlag sitt til félagsmála nemenda. Efstur á stúdentsprófi í 4. bekk og dúx skólans er Matthías Jónsson með meðaleinkunnina 9,83 á stúdentsprófi og meðaleinkunnina 10,0 á bekkjarprófi í 3. bekk.  Hlaut hann verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík. Semidúx skólans er Björk Lárusdóttir með 9,67. Fimm aðrir nemendur hlutu einnig ágætiseinkunn á stúdentsprófi; Alexandra Líf Ívarsdóttir, Ella Dís Thorarensen, Gunnar Húni Björnsson, Ingibjörg V.Hafsteinsdóttir og Stella Sigríður Vilhjálmsdóttir.

 

Fulltrúar 40 ára afmælisárgangs skólans voru viðstaddir. Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nemenda í 4C sem luku Kvennaskólaprófi 1974. Þær færðu skólanum málverk, Lífsleikni eftir eina úr hópnum, Kristínu E. Guðjónsdóttur. Landsprófsbekkurinn 3Z 1974 hefur stofnað flygilsjóð fyrir skólann og safnar nú í hann.

 

 

Myndir