Njáluferð þriðjudaginn 24.4.2007

Síðastliðinn þriðjudag fór allur annar bekkur í Kvennaskólanum í Njáluferð.  Veðrið var framar vonum miðað við árstímann og það var kátur hópur sem hélt af stað um morguninn. 
 Haldið var á helstu sögustaði í Njálu og voru nemendur vel með á nótunum enda búnir að lesa söguna vel og vandlega. Um hádegið var hópnum skipt og fór helmingur hópsins á Sögusetrið og hlustaði um stund á Bjarna Eiríksson spjalla um ástarmál í Njálu. Á meðan fékk hinn helmingurinn sér í gogginn á Hlíðarenda. Síðan var aftur skipt.
 Að því búnu hófst seinni helmingur ferðarinnar og fleiri sögustaðir heimsóttir.  Það var meðal annars stigið úr rútu á Hlíðarenda (ekki veitingastaðnum!) og nemendur upplifðu staðinn með öllum skynjunarfærum.  Sumir höfðu á orði að þeir skildu vel hvers vegna Gunnar hefði snúið til baka því að þeim fannst Hlíðin mjög fögur.
 Það var sáttur og svolítið lúinn hópur sem sigldi svo í hlað Kvennaskólans um 16.30 eftir vel heppnaða Njáluferð.