Heimsókn í stjórnmálafræði í H.Í.

Mánudaginn 11. nóvember komu nemendur sem hafa valið sér stjórnmálafræðiáfanga í Kvennaskólanum í heimsókn í tíma í Alþjóðastjórnmálum á 1. ári í BA-námi í stjórnmálafræði. Með í för var kennari þeirra, Björk Þorgeirsdóttir. Að sögn kennarans Jóns Gunnars Ólafssonar tókst þessi tilraun mjög vel. Í tímanum var fjallað um öryggisfræði og nemendur frá Kvennaskólanum tóku virkan þátt í umræðum. Hópurinn ræddi hugmyndir Íslendinga um öryggi og var farið yfir ólíkar skilgreiningar á öryggi í samhengi við skrif fræðimanna. Óhætt er að segja að heimsóknin hafi heppnast vel. Formlegri heimsókn nemendahópsins lauk eftir fyrri tímann en margir nemendur sátu áfram og tóku þátt í verkefnavinnu í seinni tímanum. Að tímanum loknum sagði Jón Gunnar: "Ég hlakka til að fá nemendahópa frá öðrum framhaldsskólum í heimsókn. Þetta er frábær leið fyrir nemendur til þess að fá innsýn inn í það fjölbreytta nám sem boðið er upp á í deildinni."