Njáluferð

Kvenskælingar fóru glaðir í bragði á Njáluslóðir síðasta dag nóvembermánaðar. Lagt var af stað frá Aðalbyggingunni í hægu og mildu veðri. Á leiðinni austur var fallegt að horfa á dagrenninguna og var orðið vel ratljóst þegar fyrsta áfangastað var náð. Kappklæddir nemendur hlupu að Gunnarssteini þar sem Gunnar á Hlíðarenda og bræður hans börðust við þrjátíu menn. Ekki þarf að spyrja að því hverjir höfðu sigur. Síðan voru fleiri sögustaðir heimsóttir og á Hlíðarenda gafst tækifæri til að bregða á leik í snjókasti. Það fannst ýmsum nemendum ekki leiðinlegt. Grillskálinn á Hvolsvelli fékk að njóta nærveru nemenda og síðast en ekki síst var sögusetrið á Hvolsvelli heimsótt. Þar fengu nemendur tækifæri til að skoða sig um og setja sig í spor ýmissa persónu í Njálu, t.d. í spor Hallgerðar langbrókar þegar Bergþóra rak hana úr sæti eða í spor Þráins sem hafði konuskipti í brúðkaupi Gunnars og Hallgerðar. Á safninu er einnig að finna líkan af Þingvöllum og þar er líka nokkuð myndarlegt vopnabúr og reyndu sumir aðeins fyrir sér í vopnaskaki. Góður rómur var gerður að ferð þessari og ríkti almennt sátt meðal nemenda þegar þeir stigu úr rútunum og héldu hver til síns heima í skammdegisrökkrinu.