Lifandi bókasafn í Kvennó

Lifandi bókasafn fór fram hér í Kvennó fimmtudaginn 13. nóvember. Undirbúningur og skipulagning bóksafnsins var alfarið í höndum nemenda í FÉL203. Lifandi bókasafn starfar nákvæmlega eins og venjulegt bókasafn - lesendur koma og fá "lánaða" bók í takmarkaðan tíma. Það er aðeins einn munur á: bækurnar í Lifandi bókasafni eru fólk og bækurnar og lesendurnir eiga persónuleg samskipti. Í Lifandi bókasafni geta bækurnar ekki aðeins talað, heldur einnig svarað spurningum lesandans og þar að auki geta bækurnar jafnvel spurt spurninga og sjálfar fræðst. Hugmyndin að Lifandi bókasafni varð til að frumkvæði ungs fólks á Norðurlöndum og varð fyrst að veruleika árið 2000 á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku.
 
Þetta er annað árið sem nemendur í félagsfræði skipuleggja Lifandi bókasafn. Yfirskrift safnsins í ár var "Vinnan og námið". Bækurnar voru því fulltrúar ákveðinna starfstétta og gátu svarað spurningum um hvaða nám og/eða reynslu þarf til að sinna störfum. Til okkar komu t.d. tannlæknir, leikskólakennari, læknir, forstjóri, kvikmyndagerðamaður, mannfræðinemi, náms- og starfsráðgjafi, stjórnmálamaður og fleiri. Hægt er að sjá myndasyrpu frá stóra deginum með því að smella hér.