Góð þátttaka í Lifandi bókasafni lista og menningar

Lifandi bókasafn fór fram í Kvennó miðvikudaginn 6. apríl. Undirbúningur og skipulagning bókasafnsins var alfarið í höndum nemenda í áfanganum FÉL221. Lifandi bókasafn starfar nákvæmlega eins og venjulegt bókasafn - lesendur koma og fá ,,lánaða" bók í takmarkaðan tíma. Það er aðeins einn munur á, bækurnar í lifandi bókasafni eru fólk og bækurnar og lesendurnir eiga persónuleg samskipti. Í Lifandi bókasafni geta bækurnar ekki aðeins talað, heldur einnig svarað spurningum lesandans og þar að auki geta bækurnar jafnvel spurt spurninga og sjálfar fræðst. Þema bókasafnsins var listir og menning og bækurnar komu úr röðum tónlistarfólks, rithöfunda, leikara, leikstjóra, myndlistarmanna, ýmissa hönnuða, dansara, ljósmyndara og arkitekta. Við viljum þakka þeim öllum kærlega fyrir að hafa heimsótt okkur.  Góð þátttaka var meðal nemenda og tókst dagurinn í alla staði mjög vel.

Andri Snær Magnason rithöfundur ræðir við bókasafnsgesti.

Hrefna og María Rós voru á meðal þeirra fjölmörgu nemenda sem tóku þátt í Lifandi bókasafni og virtust bara glaðar með daginn.

Kristín Eysteinsdóttir, leikstjóri og fyrrverandi Kvenskælingur, mætti á svæðið og spjallaði við áhugasama.