Afmælisárgangar við skólaslit

Fulltrúar nokkurra afmælisárganga voru viðstaddir útskrift stúdenta og skólaslit nú í vor . 
Fyrir hönd 60 ára afmælisárgangsins flutti Hildur Bjarnadóttir ávarp. Í vetur barst skólanum gjöf frá Þóru Þorleifsdóttur sem útskrifaðist frá skólanum fyrir 60 árum. Þetta eru glósubækur, einkunnabók, þýskir og enskir stílar frá vorprófi hennar 1944 og ræður sem Þóra hefur flutt við ýmis tækifæri, bæði á meðan hún var nemandi í skólanum og síðar þegar útskriftarhópurinn hennar hefur hist.
Fyrir hönd 50 ára afmælisárgangsins talaði Ásthildur Sigurðardóttir og Erla M. Helgadóttir færði skólanum sjö ljósmyndir sem teknar voru í veislu á Hótel Borg þegar haldið var upp á 70 ára afmæli skólans.
Ragnhildur Vigfúsdóttir talaði fyrir hönd 40 ára afmælisárgangins og Elsa Waage óperusöngkona söng Draumalandið eftir Sigfús Einarsson við undirleik Harðar Áskelssonar. Árgangurinn gaf myndarlega peningaupphæð í flygilsjóð skólans.
Tveir fulltrúar 25 ára stúdenta voru saman með ávarp, þær Ragnhildur Helgadóttir og Steinunn Grétarsdóttir.
Öll þessi ávörp þóttu vera mjög skemmtileg og góð.
20 ára stúdentar hittust nýverið og í gær bárust skólanum gjafir frá þeim, bókin Reykjavík sem ekki varð, fallegur rósavöndur og svo gáfu þau UNICEF „Skóla í kassa“ fyrir 40 börn í neyðaraðstæðum. Það er þörf áminning til okkar um að ekki fá öll börn að ganga í skóla eins og við þekkjum þá.
Sex konur úr 70 ára afmælisárgangi skólans komu í skólaslitakaffið til okkar. Þær hafa verið saman í saumaklúbbi í 70 ár.
Kvennaskólinn þakka afmælisárgöngum kærlega fyrir gjafir og tryggð þeirra við skólann. Það er skólanum mikils virði að tengslin séu ræktuð vel.

Meðfylgjandi mynd var tekin á 70 ára afmæli Kvennaskólans 1944.  Á myndinni má sjá Ragnheiði Jónsdóttur þáverandi skólastjóra Kvennaskólans (fiimmta frá hægri) og Svein Björnsson forseta Íslands (annar frá hægri) og konu hans.