Allir komu þeir aftur .....

Nú er 3NS kominn heim eftir námsferð til Svíþjóðar. Eftir stuttan stans í Kaupmannahöfn þar sem farið var á Tycho Brahe stjörnufræðisafnið var haldið með lest til Kalmar í Svíþjóð. Svo mikil er aðsókn í lestar í því landi að ekki fengust sæti nema með höppum og glöppum. Auk þess sem lestin bilaði og kom klukkutíma of seint á áfangastað. Þar tóku sænskir gestgjafar á móti lúnum ferðalöngum og ekki laust við að óróa gætti í sumum hjörtum við nafnakallið í myrkrinu á brautarstöðinni í Kalmar.

Morguninn eftir mættu allir í skólann kátir og glaðir og tókust á við hópa vinnuna. Eftir að hafa fengið staðgóðan hádegisverð í mötuneyti skólans var svo haldið til Ölands þar sem skoðuð var verksmiðja sem framleiðir glútenlaust hrökkbrauð og smákökur. Einnig var litið við í Örtagården, jurtagarðinu þar sem framleiddar eru kryddblöndur og sultutau af ýmsu tagi sem hægt var að kaupa.

Um kvöldið buðu sænsku nemendurnir til Velkomstfest þar sem snæddar voru sænskar kjötbollur og vínarbrauð og svo farið í leiki.

Þriðjudagurinn fór í heimsókn í SKB sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í geymslu og eyðingu geislavirks kjarnorkuúrgangs. Hópurinn fékk að fara niður í tilraunastöðina sem er 450 metra undir yfirborði jarðar. Seinni partinn brá svo ýmsum kunnuglegum andlitum fyrir í helstu búðum bæjarins.

Haldinn var „landsleikur“ í knattspyrnu á miðvikudagsmorgun þar sem Íslendingar lutu í lægra haldi þrátt fyrir að gefa allt í leikinn. Framan af leit þetta vel út en svo fór að draga af íslensku leikmönnunum þrátt fyrir að njóta stuðnings Didda sem endaði á spítalanum eftir að hafa staðið í marki.  Eftir leikinn var hlýtt á fyrirlestur um nanó-tækni í skólanum. Og í lok dags var Kalmarkastali skoðaður.

Epladagurinn hófst á skólastarfi þar sem unnið var í hópum með Svíunum og m.a. fjallað um Evrópusambandið. Eftir hádegi var farið í kúabú á Ölandi, skoðuð gömul mylla og 2000 ára gamlar mannvistarleifar í Ismanstorpi. Um kvöldið var snæddur Epladagskvöldverður á veitingastað. Er þetta í fyrsta sinn sem haldinn er Epladagur erlendis að því er næst verður komist.

Föstudagurinn hófst með hópavinnu í skólaum þar sem heilsa og umhverfi eru til umfjöllunar og í tilefni af því var farið í sund og sundleikfimi eftir hádegið. Sumir tóku svo þátt í taekwondo æfingu. Um kvöldið var kveðjuhóf með sænskum brauðtertum og mögnuðum draugaleik.

Heimferðin gekk mjög vel og allt eftir áætlun. Hópurinn hlakkar til að fá sænska nemendur í heimsókn á vorönninni.

Þetta var sannarlega góð ferð sem verður í minnum höfð,

Ásdís, Elva og Diddi.