Skólakynningar fyrir 10. bekkinga

Í dag, 7. febrúar,  hafa verið skólakynningar fyrir 10. bekkinga á höfuðborgarsvæðinu. Vegna plássleysis er reynt að hafa sem flestar þeirra á Tjarnardögunum og í dag komu um 650 10. bekkingar í heimsókn í Kvennaskólann ásamt kennurum sínum eða námsráðgjöfum. Kynningin er tvískipt. Annars vegar ræða starfsmenn skólans við krakkana um einkenni skólans og námsfyrirkomulagið og svara spurningum þeirra þar að lútandi. Hins vegar segja nemendur Kvennaskólans þeim frá félagslífinu og leiða krakkana í allan sannleika um helstu viðburði á vegum nemendafélagsins Keðjunnar og klúbbanna sem starfa á vegum hennar.

            Nokkrir skólar eiga enn eftir að koma til okkar og verða þær heimsóknir á næstu vikum. Einnig verður opið hús fyrir 10. bekkinga og forráðamenn þeirra þar sem þeir geta komið, skoðað skólann,  kynnt sér skólastarfið hér og rætt bæði við starfsmenn og nemendur. Áætlað er að opna húsið verði í fyrri hluta mars og verður það auglýst m.a. á heimasíðu skólans.