Góð þátttaka í Lifandi bókasafni lista og menningar

Lifandi bókasafn fór fram í Kvennó föstudaginn 19. apríl og var undirbúið og skipulagt alfarið af nemendum í áfanga sem snýst um svona viðburðarstjórnun. Lifandi bókasafn starfar nákvæmlega eins og venjulegt bókasafn - lesendur koma og fá ,,lánaða" bók í takmarkaðan tíma. Það er aðeins einn munur á, bækurnar í lifandi bókasafni eru fólk og bækurnar og lesendurnir eiga persónuleg samskipti. Í Lifandi bókasafni geta bækurnar ekki aðeins talað, heldur einnig svarað spurningum lesandans og þar að auki geta bækurnar jafnvel spurt spurninga og sjálfar fræðst. Þema bókasafnsins var kynjafræði og bækurnar í ár voru fulltrúar frá ákveðnum hópum sem láta sig kynjafræðileg málefni varða sem sérfræðingar eða hagsmunaaðilar. Hér var fjallað meðal annars um klám, vændi, mansal, jafnrétti, ofbeldi gegn konum í þróunarlöndum og marga aðra hluti. Við viljum þakka þeim öllum kærlega fyrir að hafa heimsótt okkur. Góð þátttaka var meðal nemenda og tókst dagurinn í alla staði mjög vel.